Skoðun

Grenjað yfir grillinu

Margrét Jónsdóttir skrifar
Nú, þegar menn hafa grátið úr sér augun yfir lélegu grillsumri og óseldu rollukjöti, kemur skýrsla frá OECD út. Ekki er hún falleg, því þar segir að við Íslendingar séum í djúpum skít, hvað meðferð okkar á landinu viðkemur. Gróðureyðing af völdum ofbeitar SEM BORGAÐ ER MEÐ.

Það er eins og ég kannist eitthvað við þetta! Jú, einmitt. Nokkuð sem ég hef bent hér á í skrifum mínum undanfarinn rúmlegan áratug. Við höfum nefnilega verið að borga með ofbeitinni en dregið lappirnar í að græða upp landið eins og til stóð þarna um árið. Hættum nú að stinga hausnum í sandinn og rífum okkur upp á ra…….. og gerum ærlega tiltekt í þessu vandræðalega máli sem sauðfjárbúskapur hefur ratað í.

Nú hvað er til ráða?

1. Hætta beingreiðslum.

2. Friða allt viðkvæmt land og koma fé í beitarhólf.

3. Framleiðum aðeins það sem við torgum hér innanlands. Sem þýðir að við getum refsað Rússum í leiðinni og hætt að selja þeim okkar dýrmæta gróður í formi kjöts.

4. Eflum uppgræðslu með lúpínu og hættum að vera svona ofboðslega hrædd við hana. Hún er ekki bara falleg heldur breytir hún eyðimörkinni í frjósaman jarðveg. Hopar svo fyrir öðrum gróðri í fyllingu tímans. Þetta má sjá víða um land.

5. Stóreflum skógrækt. Ekki veitir af í þessu eldfjallalandi, þar sem koldíoxíðkvótinn getur gufað upp í einu gosi.

Það er kominn tími til að tengja. Stórminnkum sauðfjárrækt, friðum öll viðkvæm svæði og græðum landið upp. Verum okkur ekki lengur til skammar í alþjóðasamfélaginu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×