Innlent

Greinir á um ágæti tilboðs SA

Óli Kristján Ármannsson / Heimir Már Pétursson skrifar
Björn Snæbjörnsson er formaður Starfsgreinasambandsins (SGS).
Björn Snæbjörnsson er formaður Starfsgreinasambandsins (SGS).
Tilboð Samtaka atvinnulífsins (SA) í yfirstandandi kjaraviðræðum felur í sér 23,5 prósenta hækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma, að því er samtökin áréttuðu í tilkynningu í gær.

„Innifalið í þeirri hækkun er átta prósenta sérstök hækkun dagvinnulauna, samhliða auknum sveigjanleika vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags,“ segir í tilkynningunni.

„Samkvæmt tilboði SA hækkaði lægsti taxti aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins (SGS) um 47 þúsund krónur á mánuði á þremur árum. Meðaldagvinnulaun félagsmanna aðildarfélaga SGS hækkuðu úr 260 þúsund krónum á mánuði í 320 þúsund krónur eða um 60 þúsund krónur og meðaldagvinnulaun fiskvinnslufólks úr 290 þúsund krónum á mánuði í 360 þúsund eða um 70 þúsund krónur.“

Þá hafi SA einnig boðið sérstaka hækkun lágmarkstekjutryggingar fyrir fulla dagvinnu sem næði 280 þúsund krónum á mánuði í lok samningstímans.

Í samtali við fréttastofu sagði Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, að hugmyndir SA feli í sér að lægsti kauptaxti hækkaði um 28 þúsund krónur á næstu þremur árum.

„Að öðru leyti áttu menn að fá einhver átta prósent með því að lengja dagvinnubilið frá sex á morgnana til sjö á kvöldin og yfirvinnuálagið færi úr 80 prósentum (á dagvinnulaunin) í 50 prósent,“ sagði hann og kvað tilboðið rýrt.

„Við værum kannski tilbúin að skoða hlutina ef þetta væri til eins árs.“

Sigurður Bessason formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins, tók í svipaðan streng.

Raunin væri að félögin væru sjálf að leggja til launahækkunina með breytingum á yfirvinnutíma og vaktavinnuálagi.

„Þannig að ég gat ekki og hef ekki séð það sem lausn í þeirri deilu sem hér er undir,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×