Körfubolti

Greining á vandamálum Njarðvíkinga: Þristaregn, tapaðir boltar og Teitur tekur yfir leikhlé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Njarðvík tapaði fyrir Keflavík, 80-73, í Suðurnesjaslagnum á fimmtudaginn. Þetta var fjórða tap Njarðvíkinga í röð en þeir sitja í 10. sæti deildarinnar.

Frammistaða Njarðvíkinga í leiknum var ekki góð og sóknarleikur liðsins var afar óskilvirkur eins og Hermann Hauksson fór yfir í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

Njarðvík tók alls 32 þriggja stiga skot í leiknum en þau væru fæst opin eða tekin í góðu jafnvægi.

„Þetta eru ekki góðir þristar. Og jafnvel þótt þeir séu opnir eru þeir teknir hátt í metra fyrir utan þriggja stiga línuna. Í staðinn fyrir að koma sér inn í leikinn með því að fara á körfuna tóku þeir alltaf þriggja stiga skot vel fyrir utan,“ sagði Hermann.

Hann fór einnig vel yfir framkvæmd Njarðvíkinga á vaggi og veltu (pick and roll), tapaða bolta og þvingaðan sóknarleik grænna.

Þá fóru strákarnir í Körfuboltakvöldi yfir athyglisvert leikhlé Njarðvíkinga þar sem Teitur Örlygsson, sem var kominn á bekkinn, hafði orðið á meðan aðalþjálfarinn Daníel Guðmundsson sagði fátt.

„Það er einhver losarabragur á öllu þarna, allt í einu er Teitur kominn inn í þetta. Maður sá að hann langaði að segja meira í leikhléunum en hann fékk að gera. Ég skil ekki hvað er að gerast þarna,“ sagði Hermann.

Greininguna á vandamálum Njarðvíkur má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×