Lífið

Greindir karlmenn þurfa ekkert að vera í felum

Benedikt Bóas skrifar
Þráinn Þorvaldsson, forsvarsmaður hópsins Frískir menn.
Þráinn Þorvaldsson, forsvarsmaður hópsins Frískir menn. Mynd/Þráinn Þorvaldsson
Mottumars er hafinn og er átak Krabbameinsfélagsins nú helgað reykingum þó öll krabbamein karla séu einnig til umfjöllunar. Algengasta krabbamein karla er blöðruhálskirtilskrabbamein (BHKK) en að meðaltali greinast um fjórir karlmenn með BHKK í hverri viku. Þriðjungur þeirra sem greinast með krabbamein eru greindir með BHKK. 

Stuðningshópurinn Frískir menn, sem starfar innan Krabbameinsfélagsins, var stofnaður fyrir þremur árum. Í honum eru karlmenn sem hafa greinst með BHKK en velja virkt eftirlit í stað þess að fara í meðferð. Sé meinið staðbundið er hægt að fylgjast með viðkomandi og veita ekki meðferð nema sjúkdómurinn ágerist. 

Karlmenn eru með blöðruhálskirtil, ekki konur. Mikilvægasta hlutverk blöðruhálskirtilsins er að framleiða sáðvökva sem flytur sæðisfrumur. Mynd/Krabbameinsfélagið
Þráinn Þorvaldsson, forsvarsmaður hópsins, segir að hann sé einstakur á heimsvísu því hann sé fyrsti stuðningshópurinn í heiminum sem vitað er um að hafi verið stofnaður af mönnum sem velja virkt eftirlit. Allir aðrir stuðningshópar eru fyrir alla menn sem hafa greinst með BHKK. „Þegar ég greindist fyrir 12 árum þá var ekki mælt sérstaklega með að velja virkt eftirlit. En nú er þetta að verða viðurkenndari aðferð og reynslan af henni er mjög góð. Það hefur komið í ljós að alltof margir menn hafa farið í meðferð að óþörfu.“

Þráinn segir að hópurinn hafi átt frumkvæði að útgáfu vefrits sem nýlega kom út og birtist á vef Krabbameinsfélagsins og er fyrir þá karlmenn sem eru nýgreindir með BHKK. „Karlmenn sem greinast eru því miður oft í felum. Það eru til dæmi um að karlmenn hafi ekki sagt maka sínum frá því að þeir hafi verið greindir. Bæklingurinn á að hjálpa við að svara spurningum sem koma upp,“ segir Þráinn sem, ásamt Sigurði Skúlasyni hafði forgöngu um útgáfu bæklingsins.

Velunnarasjóður Krabbameinsfélagsins styrkti útgáfuna og þýddi Þórunn M. Lárusdóttir hjúkrunarfræðingur efnið sem gefið var út af samtökunum Prostate Cancer í Bretlandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Sigurður Skúlason, leikari, kom einnig að því að bæklingur er nú aðgengilegur.vísir/stefán





Fleiri fréttir

Sjá meira


×