Innlent

Greiðir skuldina til baka og sleppur við kæru

Samúel Karl Ólason skrifar
Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambands Íslands.
Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambands Íslands. Vísir/Valgarður
Sátt hefur náðst á milli Pókersambands Íslands og fyrirtækisins Pokerstars, vegna fjárdráttar fyrrverandi formanns og gjaldkera sambandsins. „Sáttin felst í því að Pókersambandið er búið að greiða upp skuld fyrri formanns,“ segir Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambandsins í samtali við Vísi.

Aðdragandi málsins er að Pókersambandið og Pokerstars gerðu með sér samning um að undankeppni Íslandsmótsins í póker skyldi leikin í gegnum netið. Pokerstars millifærði svo ákveðna upphæð vegna fjölda keppenda á Pókersambandið.

„Pokerstars millifærðu óvart í evrum en áttu að gera það í dollurum. Hún tók eftir því og bjó til falsaða kvittun, þar sem hún hafði breytt evrumerkinu í dollaramerki.“ Fyrrverandi formaður og gjaldkeri sambandsins hafði einn aðgang að reikningum félagsins.

„Svo þegar ný stjórn tók við sambandinu beið okkar stór reikningur frá Pokerstars,“ segir Davíð. „En það er komin fullkomin sátt og við erum búin að greiða þetta til baka. Fjárhagseftirlit Pokerstars hefur gefið út að þeir séu sáttir við starfsemi okkar og hún standist allar kröfur.“

Fyrrverandi formanni var gefinn kostur að greiða skuldina til baka og sleppa þannig við kæru. Það er hún nú að gera.

„Batnandi fólki er best að lifa. Það þarf ekki alltaf að hengja fólk,“ segir Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×