Viðskipti innlent

Greiðir leiðina að erlendu fjármagni og út úr höftum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stóru viðskiptabankarnir þrír eru allir með lánshæfismatið BB+/B.
Stóru viðskiptabankarnir þrír eru allir með lánshæfismatið BB+/B.
„Þetta hefur jákvæð áhrif á fjármögnunarmöguleika bankanna og greiðir okkur leiðina út úr höftunum,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, um ákvörðun matsfyrirtækisins Standard & Poor‘s (S&P) um að breyta horfum um þróun efnahagsáhættu á Íslandi úr stöðugum í jákvæðar.

„Þetta er hins vegar lítið skref og til að lánshæfismat ríkis og banka hækki þarf skýrari áætlun að liggja fyrir um hvernig standa á að afnámi gjaldeyrishaftanna,“ segir Björn.

S&P breytti einnig lánshæfishorfum stóru viðskiptabankanna þriggja úr stöðugum í jákvæðar og staðfesti BB+/B einkunnir þeirra. Björn segir ákvörðun matsfyrirtækisins senda mikilvæg skilaboð um að erlendir lánveitendur horfi til Íslands með jákvæðari augum en áður.

„Ef við höldum rétt á spilunum er full ástæða til að vænta þess að þessum meðbyr muni fylgja hækkanir á lánshæfi ríkisins og einkunnum bankanna. Þarna er ákveðin vísbending um að efnahagsleg staða þjóðarbúsins sé betri en núverandi lánshæfismat ríkisins gefur til kynna og ef við höldum okkar striki muni það hækka í kjölfarið enda er það nú lágt miðað við önnur ríki í svipaðri stöðu,“ segir Björn.

Hann tekur einnig fram að áætlun stjórnvalda um losun haftanna sé ekki eini stóri áhrifaþátturinn og nefnir einnig mikilvægi þessi að ríkið sé rekið með ábyrgum hætti.

„Við teljum til dæmis að nýja fjárlagafrumvarpið sé gott skref í þá átt þar sem eru skattkerfisbreytingar sem eru í góðu samræmi við ráðgjöf alþjóðastofnana og auka þannig trúverðugleika okkar gagnvart umheiminum.“

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu bankans um ákvörðun S&P að hún geti haft jákvæð áhrif á aðgengi Íslandsbanka að erlendu fjármagni.

„Þetta hefur einhver áhrif á innlenda fjármögnun bankans en hefur mest að segja erlendis. Þar hefur þetta þau áhrif að áhugi fjárfesta eykst og vonandi gerir okkur kleift að ná betri verðum sem endurspeglast beint í útlánum til viðskiptavina sem taka lán í erlendri mynt,“ segir Jón í samtali við Fréttablaðið. Hann nefnir sjávarútvegsfyrirtæki og önnur útflutningsfyrirtæki sem eru með tekjur í erlendri mynt.

„Það er mjög stíft aðhald hjá okkur og hinum bönkunum um að lána ekki í erlendri mynt til annarra en þeirra sem eru með tekjur í erlendum myntum. Það er fyrst og fremst hjá þeim sem þetta hefur bein áhrif,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×