Erlent

Greiddi fúlgur fjár fyrir þögn aðstoðarkonu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein.
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein. Vísir/Getty

Fyrrverandi aðstoðarkona kvikmyndaframleiðands Harvey Weinstein fékk greidda rúmlega 165 þúsund dali fyrir að þaga um kynferðislega áreitni sem hún varð fyrir af hendi framleiðandans.



Zelda Perkins segir í samtali við Financial Times að hún hafi skrifað undir samkomulag þess efnis árið 1998. Þá hafði hún ætlað sér að stíga fram og greina frá áreitninni. Að sögn Perkins fól áreitnin meðal annars í sér þrálátar beiðnir um nudd og þá á hann að hafa reglulega reynt að toga hana upp í rúm til sín. Leikkonurnar Lupita Nyong'o og Gwyneth Paltrow hafa báðar greint frá sambærilegum tilraunum Weinstein.



Þá hefur áður verið sagt frá því að leikkonan Rose McGowan hafi þegið svipaða greiðslu og Perkins árið 1997 eftir að framleiðandinn nauðgaði henni á hótelherbergi á Sundance kvikmyndahátíðinni.



Gæti þurft að endurgreiða Weinstein

Perkins segist skammast sín fyrir að hafa ekki þorað að segja frá framferði Weinstein á sínum tíma. Þó svo að næstum tveir áratugir eru frá því að hún undirritaði þagnarbindindið gæti hún engu að síður þurft að greiða Weinstein til baka upphæðina sem hún þáði. Þar að auki gæti hún þurft að greiða skaðabætur og annan kostnað sem til fellur vegna málareksturs fyrir dómstólum að sögn BBC.



Perkins hafi þó engu að síður ákveðið að upplýsa um hegðun kvikmyndaframleiðandans eftir að samstarfskona hennar sagðist hafa sömu sögu að segja.



Harvey Weinstein hefur neitað öllum ásökunum um að hafa áreitt og nauðgað samstarfskonum sínum í kvikmyndabransanum. Tugir kvenna hafa nú stígið fram og ásakað hann.


Tengdar fréttir

Spyrja hvers vegna Weinstein en ekki Trump

Konurnar sem sökuðu Donald Trump um kynferðislega áreitni í aðdraganda forsetakosninga Bandaríkjanna síðasta haust eru margar hverjar hissa á því hversu hart samfélagið hefur brugðist við sambærilegum ásökunum á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×