Innlent

Greiða tugi milljóna vegna uppsagna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fiskistofa er með tvær hæðir á leigu í Dalshrauni í Hafnarfirði. Önnur þeirra stendur auð og á meðan ekki tekst að framleigja hana er kostnaður 2 milljónir á mánuði.
Fiskistofa er með tvær hæðir á leigu í Dalshrauni í Hafnarfirði. Önnur þeirra stendur auð og á meðan ekki tekst að framleigja hana er kostnaður 2 milljónir á mánuði. vísir/valli
Fiskistofa greiðir tugi milljóna í biðlaun vegna samninga sem voru gerðir við starfsmenn þegar þeir létu af störfum við flutning stofnunarinnar frá Hafnarfirði til Akureyrar í ársbyrjun 2016. Tveir starfsmenn, sem Fréttablaðið ræddi við og voru báðir millistjórnendur hjá stofnuninni, fá hvor um sig greidd laun í heilt ár vegna starfslokanna. Þeir áætla að kostnaður stofnunarinnar vegna launa og launatengdra gjalda sé samtals um 25 milljónir króna.

„Við erum ekki búin að taka saman alla kostnaðarliði en í þessu róti í kringum þetta þá var náttúrlega fólk sem sá fram á að það væri að missa vinnuna og það voru fundnar leiðir til að lenda því mjúklega. Hvort sem það heitir starfslokasamningar eða annað þá var reynt að gera það á mannlegan hátt,“ segir Eyþór Björnsson fiskistofustjóri.

Eyþór Björnsson Fiskistofustjóri
Eyþór segir að ellefu manns hafi látið af störfum beinlínis vegna flutninga stofnunarinnar. Hann segir að ekki hafi allir fengið greiðslur vegna starfsloka og þeir sem fengu greiðslur hafi fengið misjafnlega mikið. Það hafi farið eftir starfslokarétti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í júní síðastliðnum um flutning ríkisstarfsemi milli landshluta segir að Ríkisendurskoðun telji ekki tímabært að meta framkvæmd, ávinning og árangur af flutningi höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar. Áhrif flutningsins séu ekki enn að fullu komin í ljós. „Samkvæmt mati fiskistofustjóra verður mögulegt að meta áhrif flutninganna á seinni hluta árs 2017 eða fyrri hluta árs 2018 þó að þeim verði ekki að fullu lokið. Áhrif fyrstu skrefanna eru þó að einhverju leyti komin fram og tilefni er til að skoða nánar aðdraganda og undirbúning flutninganna,“ segir í skýrslunni.

Þar kemur líka fram að í fjárlögum ársins 2015 voru 130 milljónir króna veittar til flutningsins. Eyþór segist ekki geta sagt til um hvort kostnaðurinn verði umfram það. Verið sé að hefja vinnu við að taka saman kostnaðinn sem til fellur. Skýrslan verði síðar kynnt, meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×