Innlent

Greiða full laun þrátt fyrir hráefnisskort

Sveinn Arnarsson skrifar
Brimberg borgar úr eigin vasa þegar hráefnisskortur er annars vegar.
Brimberg borgar úr eigin vasa þegar hráefnisskortur er annars vegar. vísir/gva
Fiskvinnslufyrirtækið Brimberg á Seyðisfirði hefur síðastliðin tvö ár greitt með atvinnuleysistryggingum þegar hráefnisskortur er annars vegar og þannig tryggt starfsmönnum sínum full laun á meðan. Þetta gerir fyrirtækið til að tryggja starfsöryggi verkafólks. Fréttablaðið sagði frá því í gær að atvinnuleysistryggingasjóður hafi greitt á síðustu fjórum árum rúman milljarð í laun fiskvinnslufólks þegar hráefnisskortur er annars vegar. Fiskvinnslufyrirtækin þurfa hins vegar að taka á sig fyrstu tíu dagana á hverju ári, fimm á hvorum helmingi til að eiga kost á útgreiðslu úr sjóðnum.

Adolf Guðmundsson, stjórnarformaður Brimbergs, segir þetta hluta af kjörum starfsfólks til að tryggja öryggi þess. „Við höfum á síðustu tveimur árum sett um það bil 15 milljónir árlega til viðbótar við atvinnuleysistryggingar þannig að starfsfólk okkar haldi fullum launum þrátt fyrir hráefnisskort. Öryggi fólks skiptir okkur miklu máli og ef fólk finnur fyrir óöryggi missum við starfsmenn frá okkur.“

Hann segir fyrirtækið ekki hafa þurft að segja upp fólki. „Á móti kemur að við segjum ekki fólki upp þrátt fyrir hráefnisleysi og höfum ekki verið að segja upp fólki yfir jól og áramót þegar hráefnisskortur er oft viðvarandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×