Viðskipti innlent

Greenland Express hættir flugi til Íslands

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. VÍSIR/VÖLUNDUR
Flugfélagið Greenland Express hyggst hætta að fljúga til Íslands þar sem það er óhagkvæmt. Vefsíðan Túristi.is greinir frá þessu.

Flugfélagið aflýsti fjórum ferðum í sumar milli Akureyri og Kaupmannahafnar ásamt því sem breytingar voru gerðar á leiðakerfinu og ekkert var úr flugi til og frá Akureyri. Í júlí og ágúst bauð félagið hins vegar upp á tvær ferðir í viku frá Álaborg í Danmörku til Narsarsuaq á Grænlandi með millilendingu í Kaupmannahöfn og Keflavík. Nú verður hins vegar gert hlé á starfseminni og ætla forsvarsmenn félagsins að leita leiða til að bjóða upp á beint flug milli Danmerkur og Grænlands og þar af leiðandi að hætta flugi hingað.

Á vefmiðlinum Checkin.dk segir Gert Brask, stofnandi og forstjóri Greenland Express, að það hafi reynst óhagkvæmt að millilenda á Íslandi og verið erfitt að fá bókunarkerfið til að virka sem skildi. Hann segir að stefnt sé að því að taka í gagnið nýja heimasíðu og bókunarkerfi og hefja svo áætlunarflug að nýju.

Greenland Express er ekki með flugrekstrarleyfi og leigir því vélar og áhafnir frá Denim Air. Það félag hefur þó aðeins yfir að ráða vélum af gerðinni Fokker 100 en þær duga ekki til að fljúga beint milli Grænlands og Danmerkur. Millilendingin í Keflavík hefur því verið nauðsynleg. Forsvarsmenn félagsins vonast til að geta tekið á leigu Airbus A320 þotu og þannig komist hjá stoppinu hér á landi. Þess má geta að Greenland Express er íslenskt einkahlutafélag með aðsetur í Lágmúla 7 í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×