Innlent

Green Freezer enn á strandstað

Hafnsögubáturinn Vöttur frá Reyðarfirði bíður þess nú í höfninni á Fáskrúðsfirði að flóð verði í firðinum um klukkan tíu fyrir hádegi, en þá stendur til að reyna að draga flutningaskipið Green Freezer á flot eftir að það strandaði þar um átta leytið í gærkvöldi.

Bilun varð í stjórnbúnaði, að sögn skipverja, sem olli því að skipið sigldi afturábak upp í malarrif á ströndinni. Engan af 17 manna áhöfn sakaði og hafast þeir allir við um borð. Allar björgunarsveitir á Austurlandi voru þá kallaðar út, en brátt kom í ljós að engin olía lak frá skipinu og heldur ekki sjór inn í það, en líkur eru á að skrúfa og stýri  skipsins séu löskuð.

Strax og fréttist af strandinu hélt fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson inn á fjörðinn og kom sterkri taug yfir í flutningaskipið, en einhverra hluta vegna var ekki gerð tilraun til að ná skipinu strax út og er Vilhelm farinn aftur til veiða. Fulltrúar frá Gæslunni og Umhverfisstofnun flugu með þyrlu austur í gærkvöldi til að meta aðstæður og eru þar enn.

Takist ekki að ná skipinu út á morgunflóðinu mun Landhelgisgæslan meta hvort íhlutunarrétti verði beitt, í samræmi við lög um varnir gegn mengun hafs og strandar, en varðskipið Þór er væntanlegt á vettvang í kvöld. Gott veður er á svæðinu og veðurspáin er góð næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×