Enski boltinn

Graham Taylor er látinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Graham Taylor.
Graham Taylor. vísir/getty
Graham Taylor, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins, er látinn, 72 ára að aldri.

„Það er með mikilli sorg að við þurfum að tilkynna að Graham féll frá snemma í morgun en grunur leikur á hjartaáfalli. Fjölskyldan er í sárum vegna þessa óvænta og sorglega fráfalls,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu Grahams Taylors sem send var á fjölmiðla í Bretlandi í dag.

Taylor spilaði með neðri deildar liðunum Grimbsy og Lincoln á sínum leikmannaferli. Hann þurfti að hætta 28 ára vegna meiðsla og tók þá við Lincoln sem hann gerði að D-deildarmeistara.

Eftir það tók hann við Watford en hann er goðsögn hjá stuðningsmönnum félagsins eftir það sem hann gerði fyrir Watford. Hann kom liðinu úr D-deild og upp í efstu deild á fimm árum eftir að hann tók við því árið 1977. Watford hafnaði í öðru sæti í efstu deild árið 1983 og lék til úrslita í bikarnum árið 1984.

Taylor tók svo við Aston Villa árið 1987 og kom liðinu upp í efstu deild en það hafði fallið úr efstu deild árið áður. Hann skilaði silfri í efstu deild til Villa árið 1990 þegar Liverpool vann sinn síðasta Englandsmeistaratitil.

Sumarið 1990 tók hann við enska landsliðinu eftir HM á Ítalíu og stýrði því í þrjú ár. Hann fór með England á EM í Svíþjóð 1992 en sagði af sér eftir að enska liðinu mistókst að tryggja sér sæti á HM í Bandaríkjunum árið 1994.

Taylor átti eftir að stýra Úlfunum, Watford og Aston Villa aftur áður en hann hætti í þjálfun en hann gerðist stjórnarformaður Watford árið 2009 og starfaði þar í þrjú ár. Hann var síðar gerður að heiðursforseta Watford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×