Innlent

Grænmetisbændur ósáttir: „Neytandinn vill fá að sjá hvaðan varan kemur“

Jakob Bjarnar og Stefán Árni Pálsson skrifa
Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjubænda.
Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjubænda. vísir/hag
Grænmetisbændur, og þeir sem höndla með íslenskt grænmeti, eru margir hverjir ósáttir við hvernig innflutt grænmeti er merkt og tala jafnvel um blekkingarleik í því samhengi.

Altalað er, í ranni grænmetisbænda og söluaðila íslensks grænmetis, að þeir sem flytja inn grænmeti leiki þann leik að endurpakka því sem íslensku: Þeir merkja það þá með íslensku fánaröndinni nema gæta þess að breyta örlítið litunum, þannig að þeir eru eilítið dekkri. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri garðyrkjumanna, segir gremju gæta meðal þeirra sem höndla með íslenskt grænmeti.

„Ég er nú kannski ekki endilega að horfa á að það sé verið að endurpakka því sem íslensku en það má alltaf velta því fyrir sér þegar t.d. grænu kassarnir, sem fólk þekkir og eru notaðir undir íslenskt grænmeti, eru síðan aftur notaðir undir erlent. Þá er bara búið að hella grænmetinu yfir í þá,“ segir Gunnlaugur og bendir á að þá geti fólk heldur betur ruglast á vörum.

„Meginkrafan er alltaf voðalega einföld. Neytandinn vill fá að sjá hvaðan varan kemur og það á ekkert að vera eitthvað flókið að finna út úr því, þetta á bara að vera einfalt og klárt.“

Er þarna um einskonar blekkingarleik að ræða?

„Ef það er þannig að neytandinn kemur heim með vöru sem hann taldi að væri frá einhverjum öðum aðilum eða öðru landi þegar hann keypti hana, þá er greinilega eitthvað að. Við höfum verið að sjá þetta einnig á kjötvörum hér á landi og þetta er eitthvað sem neytendur sætta sig ekkert við, “segir Gunnlaugur Karlsson hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Hann segir að þetta ætti ekki að þurfa að vera neitt vandamál ef menn fara eftir þeim lögum og reglum sem þegar eru í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×