Erlent

Grænmetisætur líklegri til að fá krabbamein

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að grænmetisætur eru líklegri til að fá krabbamein, vera með ofnæmi og eiga við geðræn vandamál að stríða. Þá þurfa grænmetisætur heilbrigðisþjónustu í meira mæli en aðrir og búi við lægri lífsgæði en gengur og gerist.

Rannsóknin fól í sér að 1.320 einstaklingum í Austurríki var skipt niður eftir matarræði og heilsuástand þeirra rannsakað. Í hópnum voru 330 grænmetisætur, 330 einstaklingar sem borða kjöt en samt mikið af ávöxtum og grænmeti, 330 einstaklinga með blendna fæðu og 330 einstaklinga sem borða mikið af kjöti.

„Rannsókn okkar sýnir að fullorðið austurrískt fólk sem neytir eingöngu grænmetis og ávaxta, eru við verri heilsu þegar kemur að krabbameini, ofnæmi og geðrænum vandamálum. Þau búa við lægri lífsgæði og þarfnast meiri heilbrigðisþjónustu,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar. Frekari upplýsingar má sjá hér.

Hér má sjá króníska sjúkdóma skipt eftir fæðuvenjum.Mynd/Skjáskot
Fjallað var um rannsóknina á vefnum Science 2.0. Þar segir að rannsóknir af þessu tagi hafi þónokkra galla og er meðal annars bent á að með svo mikinn fjölda þátttakenda þurfi spurningar að vera einfaldar.

Í skýrslunni um rannsóknina segir að með þessu rannsóknarsniði sé ekki hægt að segja til dæmis um það hvort fólk breyti mataræði sínu eftir veikindi og nauðsynlegt sé að rannsaka málið frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×