Innlent

Grænlendingar hunsa fund Norðurskautsráðs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aleqa Hammond, forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands
Aleqa Hammond, forsætis- og utanríkisráðherra Grænlands
Grænlendingar ætla að hunsa ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Kiruna í Svíþjóð á morgun. Þetta gera þeir í mótmælaskyni við að Norðurskautsráðið skuli undir formennsku Svía ekki hafa tryggt Grænlendingum sömu stöðu við samningaborðið eins og Dönum. Það sé í bága við það sem áður tíðkaðist á fundum ráðsins, þegar Grænland fékk eigin fulltrúa í helstu nefndum ráðsins, við hlið fulltrúa Danmerkur, í ljósi þess að Grænland er eina ríkið á Norðurslóðum þar sem frumbyggjar eru í meirihluta íbúa.

Ný heimastjórn Grænlands, undir forsæti Alequ Hammond, segist í yfirlýsingu vilja með þessari ákvörðun senda skýr skilaboð um að núverandi staða Grænlands á vettvangi Norðurskautsráðsins sé ekki ásættanleg og verði ekki þoluð. Heimastjórnin segist harma að hafa þurft að taka þessa ákvörðun en hún hafi verið nauðsynleg. Þátttaka í ráðinu sé forgangsmál hjá Grænlendingum. Þar til viðunandi lausn finnist á stöðu Grænlands verði þátttaka þess í ráðinu sett á bið.

Átta ríki eiga aðild að Norðurskautsráðinu; Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Fundinn í Kiruna sækja ráðherrar frá öllum aðildarríkjum nema Íslandi, þeirra á meðal John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, situr ekki fundinn en í hans stað verður við ráðherraborðið Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytis.

Breska útvarpinu BBC þykir það til marks um áhuga Johns Kerry á Norðurslóðum að hann skuli fljúga til Kiruna á sama tíma og hann tekst á við Sýrlandsstríð, spennu á Kóreuskaga og aðrar heimsógnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×