Innlent

Grænkeri gagnrýnir að ríkið styrki búfjárrækt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lömbunum, sem þarna lágu með móður sinni í grasinu og nutu sumarblíðunnar, var ef til vill slátrað nokkrum mánuðum síðar.
Lömbunum, sem þarna lágu með móður sinni í grasinu og nutu sumarblíðunnar, var ef til vill slátrað nokkrum mánuðum síðar. vísir/pjetur
Óréttlátt er af hálfu ríkisins að styðja við kvikfjárrækt með skattfé almennings í formi búvörusamninga. Þetta er mat Kristians Guttesen, grænkera úr hópnum Aktívegan, en hópurinn samanstendur af aðgerðarsinnum sem vilja berjast fyrir rétti dýra til lífs og frelsis.

„Það er óréttlátt, í fyrsta lagi, vegna þess að greiðslan fer fram að mér forspurðum, ég styð nautgripa- og sauðfjárræktunina hvort sem mér líkar betur eða verr. Það er í sjálfu sér ólýðræðislegt fyrirkomulag. Í öðru lagi er það, sem ég gegn eigin vilja er látinn styðja við, óréttlátt gagnvart dýrunum sem þjást og deyja fyrir þarfir, langanir og duttlunga þeirra sem telja sig þess umkomnir að ráða örlögum annarra lífvera,“ segir Kristian.

Kristian spyr til samanburðar hvort réttlátt væri að allir væru látnir borga afnotagjald af Ríkisútvarpinu þótt þeir hafi ekki aðgang að neti, útvarp eða sjónvarpi. „Segjum í framhaldinu að stuðningur minn við RÚV, sem ég hefði ekkert val um, ylli saklausum einstaklingum þjáningu og dauða. Væri það réttlátt?“

Hann segir marga festast í tegundahyggju í sínu daglega lífi. „Sem leiðir af sér að í krafti yfirburðarstöðu sinnar geti manneskjur komið fram við aðrar tegundir eins og þeim sýnist og því kúgað þær og gengið á rétt þeirra.“ Kristian segir sams konar viðhorf búa að baki kúgun minnihlutahópa og að ef til vill ættu þeir sem lýsa sig andvíga rasisma, kvenfyrirlitningu og hómófóbíu að velta því fyrir sér hvort þeir geti með góðri samvisku beitt tegundahyggju til að réttlæta kjötræktun. „Hugsandi einstaklingar sjá óréttlætið sem felst í því,“ segir Kristian.

Kristian Guttesen.Mynd/Sigurbjörg Sæmundsdóttir
Ástæðurnar fyrir því að neyta ekki dýraafurða segir Kristian nokkrar. Þrjár hliðar séu á umræðunni. Heilsa, umhverfi og dýravernd.

„Öll næring sem fæst úr dýrum fá dýrin sjálf úr jurtaríkinu. Það er engin nauðsynleg ástæða fyrir því að rækta dýr til að innbyrða þessi efni og þar fyrir utan veldur kjötát ýmsum kvillum, sem ekki koma upp við neyslu á jurtafæði,“ segir Kristian.

Þá segir hann engan iðnað eins mengandi fyrir umhverfið og kjötiðnaðinn. „Besta umhverfisvernd sem hver og einn getur innt af hendi er að gerast grænkeri (e. vegan). En með því að taka skatta af hverjum og einum eru allir þegnar neyddir til að brjóta á umhverfinu og framtíðinni,“ segir Kristian.

Hann segir síðasta þáttinn, hina siðferðislegu afstöðu til dýra, ef til vill veigamesta þáttinn hjá flestum grænkerum. „Dýr, sem öll eru skynibornar verur, hafa engu minni rétt til lífs en manneskjur. Enda þótt aðstæður hér á jörðu hafi einhvern tímann verið öðruvísi, er í dag engin nauðsynleg ástæða til að neyta dýra til að lifa af. Við höfum val og það val er siðferðilegt. Þegar þetta val er tekið af mér, eins og ríkið gerir með þessu fyrirkomulagi, þá er það óréttlátt. Ekki bara á einn hátt heldur á ótal marga vegu.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×