Innlent

Græn hugsun komin í stað sóunar

Svavar Hávarðsson skrifar
Drykkjarumbúðirnar sem skilað hefur verið til endurvinnslu frá 1989 eru komnar á þriðja milljarðinn.
Drykkjarumbúðirnar sem skilað hefur verið til endurvinnslu frá 1989 eru komnar á þriðja milljarðinn. fréttablaðið/anton
Það má halda því fram að endurnotkun hvers konar, eða endurvinnsla, sé í huga Íslendinga í dag sjálfsagt mál. Skoðanakannanir sýna aftur og aftur að yfir 90% aðspurðra eru jákvæð gagnvart endurvinnslu og slík könnun fréttastofu 365 á dögunum dregur upp svipaða mynd.

Bjarminn frá öskuhaugunum

Það er ekki langt síðan að eldarnir slokknuðu í opnum öskuhaugum landsmanna. Þá mátti finna við hvert byggt ból á Íslandi að kalla – með tilheyrandi lyktar- og sjónmengun. Þessir annars vinsælu söfnunarstaðir barna og unglinga fyrir hvers kyns nytjahluti, voru nefnilega algengasta aðferðin um allt land við að losa sig við úrgang, og var það reyndar staðan svo seint sem um 1990.

Má segja að áratugina á undan hafi skipulögð endurvinnsla úrgangs nær engin verið, ef brotajárn er undanskilið. Þó voru menn duglegir að endurnota ýmsa varahluti úr til dæmis bílum og skipum auk þess sem landsmenn hafa gefið föt og húsmuni á milli kynslóða.

Það er óðs manns æði að finna því stað hvenær umræðan um meiri nýtni og endurvinnslu hófst en hins vegar geyma þingskjöl vísbendingar. Fyrir réttum fjórum áratugum, í mars 1976, steig Ingólfur Jónsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í stól til að flytja tillögu til þingsályktunar um endurvinnsluiðnað.

Ingólfur útskýrði að lítið færi fyrir þessu fyrirbæri en minnti á nýtni forfeðranna. Hann sagði í ræðu sinni að ef vel yrði tekið í hugmyndina þá færi fram rannsókn á því hvort slíkur iðnaður ætti rétt á sér á Íslandi, og hvort hann gæti jafnvel verið arðvænlegur. Talaði hann þar t.d. um að nýta fisk- og búfjárúrgang og um endurvinnslu pappírs sem var afar framsækið á þeim tíma.

Orðaleppar

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, gerði sögu endurvinnslu í landinu skil í erindi á morgun­verðarfundi Samtaka iðnaðarins í lok janúar. Helgi minnti á að í íslensku máli fyrirfinnast orðaleppar sem minna á tíma sóunar og sóðaskapar – lengi tekur sjórinn við, kannast allir við.

Þetta minnir á að lengi viðgekkst að henda úr sér gengnum veiðarfærum í sjóinn, og engum fannst neitt athugavert við það. Nú koma öll net til endurvinnslu og hópar fólks ganga jafnvel fjörur til að safna saman veiðarfærum sem tapast hafa á sjó og öðru rusli. Algengt var að sjá ruslahauga við bóndabæi og enn í dag menga fyrstu urðunarstaðir á höfuðborgarsvæðinu land og haf.

Helgi vildi meina að upp úr 1990 hefði viðhorfið breyst til þessara mála hér á landi. Um líkt leyti var einnig stofnað umhverfisráðuneyti sem markaði þáttaskil í umhverfismálum hér á landi, þrátt fyrir að erindi þeirra sem gegndu þar ráðherraaembætti væri almennt ekki hátt skrifað í upphafi. Í samhengi má minnast þess að fyrstu lögin sem lúta að endurvinnslu voru lög nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Á grunni þeirrar lagasetningar var Endurvinnslan hf. sett á fót. Strax árið 1995 var um 83% af einnota drykkjarvöruumbúðum skilað til endurvinnslu og árið 1996 var þetta hlutfall komið upp í 86%. Ísland var reyndar fyrsta landið í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir, og frá því fyrirtækið hóf starfsemi hefur árangur söfnunar verið með því besta sem gerist og eru skil um 90% á ársgrundvelli.

Nú selur Endurvinnslan úr landi um 750 tonn af áli á ári og 1.800 tonn af plasti. Alls hefur Endurvinnslan tekið á móti um tveimur milljörðum umbúða frá árinu 1989.

„Að mínu mati hófst endurvinnsla þó af alvöru með tilkomu umhverfisráðuneytisins og þeim áherslumálum sem voru sett á oddinn á þeim tíma,“ segir Helgi.



Helgi Lárusson
Ný öld – ný hugsun

Viðhorfsbreytinguna í átt að frekari nýtingu og nýtni, má þó frekast rekja til þróunar eftir árið 2000. Nú er svo komið að öll sveitarfélögin hafa sett sér reglur um móttöku, flokkun og eyðingu úrgangs. Öll taka á móti spilliefnum og langflest þeirra taka við flokkuðum pappír, flöskum, timbri, fatnaði, húsbúnaði og garðaúrgangi. Lyfjum er hægt að skila í apótek um allt land.

Fyrirtækin líta á umhverfismál sem mikilvægan hluta af ímynd sinni og mörg hver hafa sótt sér umhverfisvottun og standa fyrir samfélagsverkefnum þessu tengdum. Það er auk þess dýrt að henda. Mönnum svíður gjaldtaka af úrgangi og regluverk Evrópusambandsins verður sífellt strangara, var meðal þess sem Helgi nefndi.

Skoðanakönnun sem fréttastofa 365 stóð fyrir um mánaðamótin endurspeglar að þetta viðhorf nær til alls almennings. Spurt var einfaldlega hvort menn flokki rusl eftir tegundum og það er nokk sama hvar fólk býr, hver aldur þess er eða hvar það merkir við í kjörklefanum – rúmlega 80% landsmanna svara því játandi. Ef greina má einhvern mun þá er það alltaf innan vikmarka könnunarinnar og ekkert hægt að álykta út frá því.

Gróska

Til að undirstrika það hvað vinnst með því að endurnýta til dæmis áldósir, þá má hafa það hugfast að Bandaríkjamenn henda í ruslið meira af áli en framleitt er hér á landi í þremur verksmiðjum – sem mun vera hátt í 900 þúsund tonn. Í því samhengi nefndi Helgi að stóriðjufyrirtæki á Íslandi standi sig vel í endurvinnslu – flest þeirra séu að endurnýta um 95% af sínu úrkasti.

Helgi nefndi að mikil gróska væri hér á landi í endurvinnslu. A.m.k. 3 fyrirtæki hér á landi eru í endurvinnslu á plasti, mikil gróska er í nýtingu tækifæra til vinnslu hágæðavöru úr úrgangi úr fiski og búfé. Fyrirtæki væru að vinna í fullvinnslu úrkasts frá stóriðju, vinna úr afgangstimbri, vinna í orkustjórnun, umhverfisvænum orkugjöfum svo að eitthvað sé nefnt.

Smæð landsins kemur þó í sumum tilfellum til skjalanna því í stóra samhenginu fellur ekki mikið til hér. Má þá nefna sem dæmi að þau 2.500 tonn sem falla til af áli og plasti á Íslandi eru ekki mikið að tefja fyrir í stórum úrvinnsluverum erlendis – enda tekur 15 til 20 klukkustundir að endurvinna það allt saman. Helgi telur tækifæri til að endurvinna pappír hérlends, sem þegar er um 12.000 tonn á ári og vex stöðugt.

Sími upp á vasann

En þó stórstígar framfarir hafi orðið þá eru sóknarfærin jafnframt fjölmörg – og umhverfisvakning síðustu ára dregur sannarlega ekki þar úr.

„Helstu vandamálin eru þó að það er þegar búið að virkja það sem gefur af sér. En margt af því sem eftir er, er mun dýrara að endurvinna. Ég hef heyrt að kostnaðurinn í þessum geira eigi eftir að þrefaldast til að ná markmiðum ESB fyrir árið 2030 um endurvinnslu. Hluti af þeim vanda er samsetning hlutanna sem við eigum, og má taka símana okkar og einkabílinn sem dæmi,“ segir Helgi og bætir við: „Við verðum einnig að flokka meira. Matarsóun er eitt og bann við plastpokum annað. Rafræna stjórnsýslu má nefna og tækifæri í orkustjórnun. Svo ekki sé talað um að minnka núverandi útblástur verksmiðja, bifreiða, skipa og í landbúnaði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×