Lífið

„Matreiðslumenn eru svo kreatív stétt“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Gerður Einarsdóttir og Ólafur Örn eru miklir matgæðingar.
Gerður Einarsdóttir og Ólafur Örn eru miklir matgæðingar. vísir/pjetur
„Ég fór til Brussel í fyrra og lenti á svo rosalegum matarmarkaði á götuhátíð sem mér fannst svo skemmtilegur að ég varð að koma þessu á fót hérna heima,“ segir Ólafur Örn Ólafsson sem blæs til matarhátíðar næsta laugardag í Fógetagarðinum.

„Hugmyndin er þannig að fólk geti komið, sest niður og fengið sér vín í glas og smakkað mismunandi mat,“ segir Ólafur en það verða tólf veitingastaðir sem koma og gera svokallaða götu-útgáfu af sínum réttum.

„Mér finnst dálítið skemmtilegt að hafa toppendann eins og Grillið og Kol og síðan Momo Ramen og þá staði sem gera svona götumat vanalega,“ segir matgæðingurinn. „Það er svolítið atriði að hafa alla flóruna af veitingastöðum og allir að gera götuútgáfu af matnum, eins og fínu staðirnir þurfa að nota sérstaka tækni til þess að gera sælkeraréttina, og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.“

Matarhátíðin fer fram næsta laugardag á milli klukkan 13 og 18 og stefnir Ólafur að því að halda matarhátíðir alla laugardaga út sumarið.

„Síðan verður breytilegt hvaða staðir verða hverju sinni, sumir verða stutt en aðrir allan tímann en örugglega ekki alltaf með sama matinn,“ segir Ólafur. „Matreiðslumenn eru svo kreatív stétt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×