Lífið

Götumatur verður færður í jólabúning

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ólafur hefur litlar áhyggjur af veðrinu um helgina.
Ólafur hefur litlar áhyggjur af veðrinu um helgina. Vísir/Stefán
Matarmarkaðurinn Krás var haldinn í Fógetagarðinum í sumar við góðar undirtektir, en á markaðnum er boðið upp á götumat frá ýmsum veitingastöðum. Um helgina verður hann með jólasniði og taka tólf veitingastaðir þátt.

„Það verður jólaþema. Kalt úti og hægt að fá jólaglögg og heitt súkkulaði,“ segir Ólafur Örn Ólafsson sem skipuleggur Krás ásamt Gerði Jónsdóttur.

Tjald verður sett upp í Fógetagarðinum og Ólafur segist engar áhyggjur hafa af veðrinu. „Veðurspáin er þannig að það er stilla, logn og frost sem er bara besta veður sem maður getur búist við í desember,“ segir hann glaður í bragði.

„Það er spennandi að sjá hvað fólk ætlar að gera. Það hefur einhvern jólaramma sem þarf að fylla inn í,“ Ólafur segir því margt spennandi verða á boðstólum en meðal annars verður boðið upp á indverskan og tyrkneskan mat í jólabúningi.

Verðinu verður stillt í hóf og er hugmyndin sú að gestir hafi kost á að heimsækja nokkra bása. Matarmarkaðurinn Krás er haldinn í samstarfi við Reykjavíkurborg og verður í Fógetagarðinum á laugardag og sunnudag frá klukkan tvö.

Meðal veitingastaða sem taka þátt eru Dill, Cocoos nest, Meze, Grillið á Hótel Sögu og Austurlandahraðlestin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×