Fótbolti

Gott hjá KR en enn betra hjá FH-ingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson fagnar jöfnnarmark sínu í gær.
Óskar Örn Hauksson fagnar jöfnnarmark sínu í gær. Mynd/Luke Duffy
FH og KR náðu bæði ágætum úrslitum á útivelli í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær. FH gerði betur og vann 1-0 sigur á finnska liðinu SJK Seinajoki en KR gerði 1-1 jafntefli á móti írska liðinu Cork City. Bæði lið fá seinni leikinn á heimavelli í næstu viku en á undan mætast þau í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Taktík Heimis Guðjónssonar gekk mjög vel upp í 1-0 sigri á SJK í Helsinki. FH beið átekta í fyrri hálfleiknum en tók síðan meiri áhættu í þeim seinni.

Steven Lennon skoraði eina mark leiksins með skoti beint úr aukaspyrnu á 56. mínútu leiksins en þetta var fyrsta skot FH á markið í leiknum. Lennon var útsjónarsamur þegar hann tók aukaspyrnuna því hann skaut boltanum undir leikmennina í veggnum sem stukku allir upp.

Emil Pálsson, sem var kallaður aftur úr láni frá Fjölni í síðustu viku, kom beint inn í byrjunarlið FH og það var hann sem fiskaði aukaspyrnuna sem Lennon nýtti.

KR-ingar lentu 1-0 undir á móti Cork City á Írlandi en voru fljótir að jafna og héldu svo jafnteflinu eftir mikla baráttu í seinni hálfleiknum.

Alan Bennett, fyrirliði Cork City, skoraði og kom Cork City í 1-0 eftir að KR-ingar sofnuðu á verðinum í aukaspyrnu á 19. mínútu leiksins. Írarnir voru þó bara yfir í níu mínútur því KR-liðið nýtti sér líka fast leikatriði og jafnaði metin á 28. mínútu.

Daninn Jacob Schoop tók þá hornspyrnu og Óskar Örn Hauksson skoraði með föstum skalla á fjærstönginni. Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós og KR-ingar fara heim með jafntefli og mikilvægt útivallarmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×