Lífið

Gott að hafa unga fólkið með í ráðum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ásgerður segir unga fólkið koma með ný viðhorf inn í bæjarpólitíkina.
Ásgerður segir unga fólkið koma með ný viðhorf inn í bæjarpólitíkina. Fréttablaðið/GVA
„Ég tel það hafa mikið gildi að ungt fólk sitji nefndarfundi bæjarins. Það er bæði þroskandi fyrir unga fólkið sjálft og hollt fyrir stjórnsýsluna,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, um það fyrirkomulag að ungmenni eigi fulltrúa í öllum stærstu nefndum bæjarins.

„Við höfum góða reynslu af því frá því í fyrra og nú tekur nýr hópur við. Þetta samrýmist þeirri lýðræðislegu hugmynd að fá íbúa inn í umræðuna. Allir eru ánægðir með það, bæði formenn nefnda og við í bæjarstjórninni.

Ásgerður segir unga fólkið koma með ný viðhorf, til dæmis inn í skipulagsmálin og æskulýðs- og íþróttamálin og hafa náð að breyta vissum hlutum.

„Ég get nefnt að í fyrra lagði það fram fyrirspurn í skólanefndinni um hvort möguleiki væri að opna bókasafnið eða fá afnot af byggingu skólans þegar fólk á menntaskólaaldrinum væri í prófum. Það atriði fékk jákvæðar undirtektir og gekk í gegn.“

Nefndarfundir eru ýmist haldnir mánaðarlega eða annan hvern mánuð, misjafnt eftir nefndum. „Það eru átta, níu fundir á ári sem hver og einn situr. Ungmennin hafa verið dugleg að mæta og taka virkan þátt þótt þau séu ólaunuð.“

Nýja nefndarfólkið á Nesinu
Það er ungmennaráð Seltjarnarness sem skipar í nefndirnar. Ásgerður segir það vera virkt ráð sem hafi til dæmis starfað ötullega að jafningjafræðslu.

„Ungt fólk innan bæjarins hefur meðal annars verið í fjögur ár með tölvukennslu fyrir eldri borgara á sumrin og gert það vel. Bakar stundum kökur til að koma með í tíma og útbýr flott skírteini í lok námskeiða.

Svo langaði ungmennaráðið að halda áfram að hitta eldra fólkið og nú býður það því til fagnaðarfunda í Ungmennahúsinu eitt kvöld í mánuði til að spila, syngja og dansa.“

Þau sitja í nefndum í vetur:

Anna Lilja Björnsdóttir og Victor Levi Ferrua Teitsson í íþrótta- og tómstundanefnd, Lillý Óladóttir og Tómas Helgi Kristjánsson í menningarnefnd,  Kristján Hilmir Baldursson og Ísak Arnar Kolbeinsson í skipulags- og mannvirkjanefnd, Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir og Benedikt Bjarnason í skólanefnd og Victor Levi Ferrua Teitsson og Geir Zoëga í umhverfisnefnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×