Körfubolti

Goran Dragic, Danny Green og Dunleavy fara ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan er ánægður með að Danny Green verði áfram hjá Spurs.
Tim Duncan er ánægður með að Danny Green verði áfram hjá Spurs. Vísir/EPA
Þrír öflugir NBA-leikmenn, sem voru með lausan samning við sitt lið og mörg lið sýndu áhuga, ákváðu allir að gera nýjan samning við liðið sitt og fara því hvergi í sumar.

Þetta eru slóvenski leikstjórnandinn Goran Dragic og framherjarnir Danny Green og Mike Dunleavy.

Hinn 29 ára gamli Goran Dragic gerði fimm ára samning við Miami Heat sem skilar honum 90 milljónum dollara í vasann eða meira 11,9 milljarða íslenskra króna.

Dragic spilaði síðustu 26 leiki sína á síðasta tímabili með Miami eftir að komið til félagsins í skiptum við Phoenix Suns. Hann var með 16,6 stig og 5,3 stoðsendingar að meðaltali með Miami.

Hinn 28 ára gamli Danny Green skrifaði undir fjögurra ára samning við San Antonio Spurs sem gefur honum 45 milljónir dollara í aðra hönd eða um 5,9 milljarða íslenskra króna.

Danny Green kom fyrst til San Antonio Spurs árið 2010 en hefur spilað með liðinu samfellt frá 2011. Hann var með 11,7 stig, 4,2 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali með Spurs á nýloknu tímabili sem var hans besta í tölum.

San Antonio Spurs  gerði líka stóran samning við Kawhi Leonard en mörg félög höfðu áhuga á að stela þessum snjöllu leikmönnum frá liðinu.

Hinn 35 ára gamli Mike Dunleavy gerði þriggja ára samning við Chicago Bulls þar sem hann hefur spilað frá 2013. Hann fær 14 milljónir dollara fyrir samninginn eða um 1,9 milljarða íslenskra króna.

Mike Dunleavy var með 9,4 stig að meðaltali í deildarkeppninni en skoraði 10,9 stig í leik í úrslitakeppninni.

Eitt af liðunum sem hafði mikinn áhuga á því að semja við Dunleavy var Cleveland Cavaliers en LeBron James vildi fá hann sem liðsfélaga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×