Erlent

Google fjarlægir tólf fréttir BBC

Atli Ísleifsson skrifar
Evrópudómstóllinn úrskurðaði um „réttinn til að gleymast“ í maí síðastliðinn.
Evrópudómstóllinn úrskurðaði um „réttinn til að gleymast“ í maí síðastliðinn. Vísir/Getty
Bandaríski tæknirisinn Google hefur fjarlægt tólf fréttir breska ríkisútvarpsins BBC úr leitarvél sinni vegna reglna Evrópusambandsins um „réttinn til að gleymast“ sem tók gildi í maí síðastliðinn.

Fréttirnar sem um ræðir fjalla meðal annars um dómsmál vegna sprengjugerðar á Norður-Írlandi fyrir þrettán árum og deila um horfinn hund. Google tilkynnti BBC um hvaða fréttir um ræddi, en gef ekki upp hverjir hefðu farið fram á að þær yrðu fjarlægðar.

Fréttirnar munu ekki birtast í leitarniðurstöðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en reglurnar ná einungis til netleitar í Evrópu.

Í síðasta mánuði greindu talsmenn Google frá því að 91 þúsund beiðnir hefðu borist frá einstaklingum og fyrirtækjum um að fjarlægja samtals 328 þúsund síður úr leitarniðurstöðum sínum. Hafði fyrirtækið samþykkt um helming beiðnanna, þó að ekki hafi verið greint frá því hve margar beiðnir hefðu verið teknar fyrir enn sem komið er.

Í frétt BBC er sérstaklega vísað í þær tólf fréttir sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×