Innlent

Göngumaðurinn fundinn

Atli Ísleifsson skrifar
Erlendur göngumaður fór frá Hoffelli í Hornafirði á miðvikudag en skilaði sér ekki á áfangastað í dag.
Erlendur göngumaður fór frá Hoffelli í Hornafirði á miðvikudag en skilaði sér ekki á áfangastað í dag. Vísir/Vilhelm
Göngumaðurinn sem leitað var að á Suðausturlandi er fundinn.  Á vef mbl.is segir göngumanninum hafi verið orðið kalt og hann blaut­ur en ann­ars hafi verið í lagi með hann. 

Björgunarfélag Hornafjarðar sendi fyrr í kvöld út tilkynningu þar sem sagt var frá því að erlendur göngumaður sem fór frá Hoffelli í Hornafirði á miðvikudag hefði ekki skilaði sér á áfangastað í dag.

Í tilkynningunni sagði að kona mannsins hafi náð sms sambandi við hann fyrr í dag og sagðist hann þá vera orðinn kaldur og hrakinn og í framhaldinu óskaði hún eftir aðstoð björgunarsveita. „Ekki gat hann gefið upp nána staðsetningu en sagðist staddur við á sem hann treystir sér ekki yfir. Var hann kominn í álpoka og að reyna koma yfir sig tjaldi.“

Að sögn var reynt að senda manninum svokallað "Rescue me" textaskilaboð sem, ef þeim er svarað af viðkomandi, senda nána staðsetningu til baka. “Það hefur ekki borið árangur. Björgunarfélagið byrjar á að kanna Hoffellsdal en finnist maðurinn ekki þar verða fleiri björgunarsveitir kallaðar til leitar. Upplýsingar mannsins um ána gefa því miður ekki nægilega góðar vísbendingar þar sem mikil úrkoma hefur verið á svæðinu undanfarna daga og miklir vatnavextir í ám og lækjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×