Fótbolti

Golfkylfufagnið á Nývangi á tíu ára afmæli í dag | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bellamy tekur hið ógleymanlega golfkylfufagn.
Bellamy tekur hið ógleymanlega golfkylfufagn. Vísir/Getty
Liverpool hefur í dag rifjað upp einn af stærstu og eftirminnilegustu sigrum félagsins á síðustu árum.

Í dag eru nefnilega liðin tíu ár frá því að Liverpool vann 2-1 sigur á Barcelona á Nývangi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þessi sigur átti eftir að fleyta Liverpool-liðinu áfram í átta liða úrslit því það dugði ekki Barcelona að Eiður Smári Guðjohnsen tryggði liðinu 1-0 sigur í seinni leiknum á Anfield.

Leikurinn á Nývangi byrjaði þó ekki vel fyrir Liverpool því Deco kom Barcelona í 1-0 strax á 14. mínútu leiksins.

Craig Bellamy jafnaði með skutluskalla rétt fyrir hálfleik og það var síðan Norðmaðurinn John Arne Riise sem skoraði sigurmarkið á 74. mínútu.

John Arne Riise skoraði þá eftir sendingu frá Craig Bellamy og með hægri fæti sem gerðist ekki á hverjum degi.

Það hefði gengið á ýmsu á milli þeirra Craig Bellamy og John Arne Riise fyrir leikinn en þeir náðu vel saman þetta febrúarkvöld. Bellamy tók líka hið ógleymanlega golfkylfufagn eftir að hann skoraði sitt mark.





Nokkrum dögum áður réðst Bellamy að Norðmanninum með golfkylfu eftir að gleðistund Liverpool-mann fór úr böndunum.

Liverpool sló hollenska félagið PSV Eindhoven út úr átta liða úrslitum og vann Chelsea í undanúrslitunum. Liverpool tapaði hinsvegar 2-1 fyrir AC Milan í úrslitaleiknum þar sem Filippo Inzaghi skoraði bæði mörk AC Milan.

Hér fyrir neðan má sjá myndir og myndband frá þessum eftirminnilega leik á Nývanig 21. febrúar 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×