Handbolti

Gólfið í Víkinni eins og skautasvell | Gólfþvottavélin var biluð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson kútveltist hér um á sleipu gólfinu í gær.
Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson kútveltist hér um á sleipu gólfinu í gær. vísir/pjetur
Alls meiddust fimm leikmenn í leik Víkings og ÍBV í gær en gólfið í Víkinni var stórhættulegt fyrir leikmenn.

Eyjamenn gerðu athugasemdir við gólfið fyrir leik en dómarar leiksins, Magnús Kári Jónsson og Þorleifur Árni Björnsson, blésu leikinn á þrátt fyrir mótbárur.

Strax á fyrstu mínútu leiksins meiddist Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, og nokkrum mínútum síðar meiddist Víkingurinn Jóhann Reynir Gunnlaugsson. Hann er núna í gifsi og spilar ekki næstu vikurnar.

Fleiri leikmenn meiddust í kjölfarið en þrátt fyrir hættulegar aðstæður létu dómararnir klára leikinn með tilheyrandi fórnarkostnaði.

„Gólfþvottavélin var biluð í Víkinni. Vélin sýgur ekki upp vatnið og sápuna og því var gólfið svona sleipt," segir Róbert Gíslason, mótastjóri HSÍ, en hann var þá nýbúinn að skoða aðstæður í Víkinni. En af hverju var leikurinn ekki flautaður af á einhverjum tímapunkti?

Úr leiknum í gær.vísir/pjetur
„Við erum að bíða eftir skýrslu frá dómurunum um málið og ég get því ekki tjáð mig um það núna. Við eigum líka von á skýrslu frá Víkingum vegna málsins."

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Róbert hefur undir höndum má rekja meiðsli þriggja leikmanna til aðstæðna í húsinu.

„Það fara ekki fram leikir í Víkinni fyrr en búið er að gera við vélina. Þetta mál verður sent mótanefnd til umsagnar þegar allar upplýsingar eru komnar til okkar. Þetta er mjög sérstakt mál. Það uppgötvast ekki fyrr en seint að gólfið sé sleipt og menn vissu í fyrstu ekki hverju var um að kenna."

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Víkings, slær á létta strengi á Facebook-síðu sinni af þessu tilefni eins og sjá má hér að neðan.

Mættur til að redda málunum ...

Posted by Ágúst Jóhannsson on Tuesday, October 13, 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×