Körfubolti

Golden State skoraði 60 stig í fyrri hálfleik en tapaði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Durant í leiknum í nótt.
Kevin Durant í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Úrslitaeinvígi vesturdeildarinnar í NBA-deildinni fór af stað með látum í nótt þegar Oklahoma City Thunder gerði sér lítið fyrir og vann meistara Golden State Warriors á útivelli, 108-102.

Oklahoma City kom mörgum á óvart með því að slá San Antonio Spurs úr leik í undanúrslitum vestursins en sýndi í nótt að sá árangur var engin tilviljun.

Golden State hefur ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum í úrslitakeppninni hingað til og virtist á góðri leið með að vinna sigur í nótt en liðið var yfir að loknum fyrri hálfleik, 60-47.

En Oklahoma City fór í fluggírinn í þriðja leikhluta og þá sérstaklega Russell Westbrook sem skoraði nítján stig í honum. Hann var alls með 27 stig í leiknum, þar af 24 í síðari hálfleik.

Gestirnir tóku svo forystuna í fjórða leikhluta og náðu að halda Oklahoma City í aðeins fjórtán stigum. Lokasekúndurnar voru þó spennandi en Kevin Durant setti niður körfuna sem tryggði sigurinn þegar 30 sekúndur voru eftir. Hann var alls með 26 stig í leiknum.

Steph Curry, besti leikmaður deildarinnar, skoraði einnig 26 stig í leiknum og tók tíu fráköst. Hann byrjaði leikinn af krafti en hitti illa í síðari hálfleik, rétt eins og allt lið Golden State. Liðið hefur ekki skorað svo fá stig í úrslitakeppninni, hvorki í síðari hálfleik (42) né fjórða leikhluta (14).

Klay Thompson var með 25 stig í leiknum, þar af nítján í fyrri hálfleik. Hann nýtti þrjú af tíu skotum sínum í síðari hálfleik.

Annar leikur liðanna í rimmunni fer fram annað kvöld og verður einnig á heimavelli Golden State.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×