Körfubolti

Golden State sendi New Orleans í sumarfrí | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry var magnaður í einvíginu við New Orleans.
Stephen Curry var magnaður í einvíginu við New Orleans. vísir/afp
Fjórir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt.

Golden State Warriors tryggði sér fyrst liða sæti í undanúrslitum með 11 stiga sigri á New Orleans Pelicans, 98-109. Golden State vann einvígið 4-0 og mætir sigurvegaranum úr einvígi Memphis og Portland í næstu umferð.

Stephen Curry átti enn einn stórleikinn fyrir Golden State og skoraði 39 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Klay Thompson kom næstur með 25 stig og þá átti Draymond Green flottan leik með 22 stig, 10 fráköst og átta stoðsendingar.

Anthony Davis skoraði 36 stig og tók 11 fráköst fyrir New Orleans sem er komið í sumarfrí.

Memphis Grizzlies er komið í lykilstöðu í einvíginu við Portland eftir 109-115 sigur á útivelli í nótt.

Marc Gasol skoraði 25 stig og tók sjö fráköst fyrir Memphis sem varð fyrir áfalli þegar leikstjórnandinn Mike Conley þurfti að yfirgefa völlinn í 3. leikhluta vegna meiðsla.

Nicolas Batum var atkvæðamestur í liði Portland með 27 stig en fjórir leikmenn liðsins skoruðu yfir 20 stig í leiknum. Það dugði þó ekki til.

Milwaukee Bucks er enn á lífi í einvíginu gegn Chicago Bulls eftir ævintýralegan sigur í nótt, 92-90. Jarrid Bayless var hetja Milwaukee en hann tryggði liðinu sigurinn með flautukörfu.

O.J. Mayo var stigahæstur í liði Milwaukee með 18 stig en Jimmy Butler skoraði mest fyrir Chicago, eða 33 stig.

Brooklyn Nets minnkaði muninn í 2-1 gegn Atlanta Hawks með átta stiga sigri á heimavelli, 91-83. Þetta var fyrsti sigur Brooklyn á Atlanta í vetur í sjöundu tilraun.

Miðherjinn Brook Lopez var atkvæðamestur í liði Brooklyn með 22 stig og 13 fráköst. Thaddeus Young kom næstur með 18 stig og 11 fráköst.

DeMarre Carroll skoraði 22 stig fyrir Atlanta og Paul Millsap bætti 18 stigum og 17 fráköstum við.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×