Körfubolti

Golden State komið í 2-0 án Curry | Sjáðu ótrúlega flautukörfu Toronto

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Draymond Green og Andre Iguodala fagna í leiknum í nótt.
Draymond Green og Andre Iguodala fagna í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og eru meistararnir í Golden State komnir í 2-0 forystu í rimmu sinni gegn Portland í undanúrslitum vesturdeildarinnar í úrslitakeppninni.

Stephen Curry missti af leiknum vegna meiðsla en líklegt er að hann komi aftur í lið Golden State strax í næsta leik á laugardagskvöld.

Portland var með undirtökin lengst af í leiknum í nótt en meistararnir náðu forystunni þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum og létu hana ekki aftur af hendi. Niðurstaðan var 110-99 sigur Golden State.

Klay Thompson átti enn einn stórleikinn en hann skoraði 27 stig í nótt. Draymond Green bætti við sautján stigum auk þess sem hann tók fjórtán fráköst, gaf sjö stoðsendingar og varði fjögur skot.

Miami er komið í 1-0 forystu í undanúrslitum austursins eftir sigur á Toronto, 102-106, í framlengdum leik á útivelli í nótt. Goran Dragic var stigahæstur hjá Miami með 26 stig en Dwayne Wade tók til sinna mála í framlengingunni og skoraði þá sjö af sínum 24 stigum í leiknum.

Toronto náði að tryggja sér framlengingu þrátt fyrir að hafa verið sex stigum undir þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Kyle Lowry tryggði svo Toronto framlengingu með ótrúlegri þriggja stiga körfu frá miðlínu, eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan.

En Miami hélt Toronto án stiga í tæpar fjórar mínútur í framlengingunni og tryggði sér mikilvægan sigur í rimmunni.

Toronto fær annað tækifæri á heimavelli þegar liðin mætast í leik tvö annað kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×