Körfubolti

Golden State hélt sér á lífi í rimmunni gegn OKC | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Golden State Warriors hélt einvíginu gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum vesturdeildar NBA á lífi í nótt með níu stiga sigri, 120-111. Staðan í rimmu liðanna er 3-2 fyrir OKC.

Golden State byrjaði leikinn vel og vann á endanum þrjá leikhluta af fjórum og sigldi góðum sigri í höfn gegn OKC-liðinu sem var búið að vinna tvo í röð fyrir leikinn í nótt.

Steph Curry skoraði 31 stig fyrir Golden State, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hann hitti úr þremur þristum af átta og setti niður öll tíu vítaskotin sín.

„Mér fannst hann líta út fyrir að vera svona 91 prósent heill í leiknum,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, um aðalmanninn sinn sem hefur verið meiddur í úrslitakeppninni.

Kevin Durant og Russell Westbrook skoruðu samtals 71 stig. Durant setti 40 stig í nótt en Westbrook var með 31 stig, átta stoðsendingar og sjö fráköst.

Næsti leikur liðanna fer fram í Oklahoma City en þar fær OKC annað tækifæri til að komast í lokaúrslitin og senda meistarana í sumarfrí.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×