Körfubolti

Golden State fór illa með Cleveland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James og Kevin Durant í baráttunni í nótt.
James og Kevin Durant í baráttunni í nótt. Vísir/AP
Golden State Warriors náði loks að vinna sigur á LeBron James og félögum hans í Cleveland Cavaliers í NBA-deilldinni.

Cleveland vann rimmu liðanna í lokaúrslitunum síðastliðið vor eftir að hafa lent 3-1 undir og vann svo þegar liðin mættust á jóladag síðastliðinn, 109-108.

En í þetta sinn voru yfirburðir Golden State, sem var á heimavelli í nótt, algerir. Steph Curry setti niður fimm þrista og gaf þar að auki ellefu stoðsendingar í 126-91 sigri sinna manna.

Klay Thompson setti líka niður fimm þriggja stiga skot og skoraði 26 stig alls. Draymond Green var með þrefalda tvennu - 11 stig, þrettán fráköst og ellefu stoðsendingar.

LeBron James fann sig ekki. Hann nýtti aðeins sex af átján skotum sínum og lenti þar að auki í stimpingum við Green en það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist.

Cleveland er enn efst í austurdeildinni með 29 sigra en liðið hefur verið að gefa aðeins eftir síðustu vikurnar eftir kröftuga byrjun.

Golden State er sömuleiðis í efsta sæti vesturdeildarinnar og hefur unnið átta af síðustu tíu leikjum sínum og nítján af 22 heimaleikjum.



Boston vann Charlotte, 108-98, þar sem Isaiah Thomas fór mikinn og skoraði 35 stig, þar af sautján í fjórða leikhluta. Þetta var níundi sigur Boston í síðustu ellefu leikjum liðsins og 25. leikur Thomas í röð þar sem hann skorar minnst 20 stig.



LA Clippers vann Oklahoma City, 120-98. Russell Westbrook átti ekki sinn besta leik í vetur og skoraði 24 stig. Hann nýtti aðeins sjö af nítján skotum sínum.



Úrslit næturinnar:

New York Knicks - Atlanta 107-108

Washington - Portland 120-101

Milwaukee - Philadelphia 104-113

Indiana - New Orleans 98-95

Denver - Orlando 125-112

Boston - Charlotte 108-98

Golden State - Cleveland 126-91

Phoenix - Utah 101-106

LA Clipeers - Oklahoma City 120-98

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×