Innlent

Gögn málsins sanna ekki morðið á Karli

Snærós Sindradóttir skrifar
Friðrik Brynjar Friðriksson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Friðrik Brynjar Friðriksson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. VÍSIR/Vilhelm
Það er álit tveggja dómkvaddra matsmanna að ekki sé hægt að segja til um það með afgerandi hætti hvort Friðrik Brynjar Friðriksson varð Karli Jónssyni að bana, eða ekki, í maí í fyrra.

Friðrik Brynjar var dæmdur í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir morðið á Karli.

Vitnaleiðslur fóru fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær yfir tveimur dómkvöddum matsmönnum sem fengnir voru til að yfirfara rannsókn málsins og þau gögn sem liggja fyrir. Matsmennirnir gagnrýndu meðal annars ljósmyndir sem lögregla hafði tekið af vettvangi glæpsins en sumar þeirra voru óskýrar og ónothæfar við yfirferð matsmannanna.

Þá vantaði ljósmyndir frá öllum sjónarhornum meðal annars í tilfelli blóðugs handarfars sem fannst á svalahandriði íbúðarinnar þar sem Karl var drepinn.

Einnig voru myndir af blóðdropum í forstofu íbúðarinnar óstaðsettar og svo virtist sem erfitt hefði verið að greina af myndunum stærð dropanna. Engin útskýring hefur fengist á blóðdropunum í forstofunni.

Það sem vekur athygli í málinu er að ekkert blóð fannst á hvítri peysu Friðriks sem hann var í kvöldið sem morðið átti sér stað.

Gillian Leak, breskur matsmaður, sagði að það eitt og sér sanni þó ekki sakleysi Friðriks.

Hún sagðist oft hafa unnið að svipuðum morðmálum þar sem lítið blóð hefði slest á gerandann og hefði það meðal annars með staðsetningu morðingjans að gera. Kraftur stungnanna skiptir jafnframt máli en Karl var stunginn með svo miklu afli að bæði blað og skefti hnífsins sem notaður var brotnaði.

Í dómsal var tekist á um hvort framburður Friðriks Brynjars stæðist skoðun. Hann greindi frá því að hann hefði komið að líki Karls og dregið það út á svalir. Lítið blóð hafði myndast þar sem líkið hafði verið stungið og mat saksóknari það sem svo að líkið hefði því verið dregið strax eftir að það var stungið.

Gillian Leak sagði þó að vel væri mögulegt að á milli tíu til fimmtán mínútur hefðu liðið frá því að Karl lést af sárum sínum og þar til lík hans var dregið út á svalir. Því til stuðnings vísaði hún til krufningarskýrslu sem sýndi að mikið blóð safnaðist innvortis í Karli án þess að finna sér leið út úr líkamanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×