Gagnrýni

Góður Hamlet í gallaðri sýningu

Jón Viðar Jónsson skrifar
Ólafur Darri og Hildur Berglind í hlutverkum sínum.
Ólafur Darri og Hildur Berglind í hlutverkum sínum. Mynd/Grímur Bjarnason
Hamlet eftir Shakespeare í Borgarleikhúsinu

Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson Aðstoðarleikstjóri: Jón Atli Jónasson Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: María Ólafsdóttir Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson Tónlist: Úlfur Eldjárn Hljóð: Baldvin Magnússon Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir Þýðing: Helgi Hálfdanarson og Jón Atli Jónasson



Hin nýja uppfærsla Leikfélags Reykjavíkur á Hamlet hefur bæði sína kosti og galla. Umgerðin öll: leikmynd, lýsing, búningar og tónlist, allt vinnur það vel, að ekki sé sagt, glæsilega saman. Sumir leikenda skila sínu einnig ágætlega. Hamlet Ólafs Darra Ólafssonar á hug manns frá upphafi og hann fer afburða vel með flestar einræðurnar, ekki síst þá frægustu: Að vera eða ekki vera; hún var þannig flutt að mér fannst ég vera að heyra hana í fyrsta skipti. Tilfinningaleg einlægni og þróttur einkenna leik hans sem skilar einnig viðkvæmni persónunnar; sumir kynnu að sakna hinna sjúku geðsveiflna, þess demónska í fari Hamlets, en ég er ekkert viss um að ég sé í þeim hópi; satt að segja hef ég séð alveg nógu marga slíka Hamleta. Mér finnst túlkun Ólafs Darra vera samkvæm sjálfri sér og trúverðug á heildina litið.



Hitt er annað mál að sitthvað í leikgerð, sviðsetningu og útfærslu einstakra atriða frá hendi leikstjóra gerir honum ekki alltaf auðvelt fyrir. Jón Páll Eyjólfsson kýs af einhverjum sökum að nota aðeins níu leikara (ég geri varla ráð fyrir að leikhússtjórinn hafi neitað honum um fleiri) og það kostar mikinn niðurskurð, fækkun persóna og dúbleringar, styttingar, einfaldanir og á stundum mjög hæpnar breytingar eða „lausnir“. Hvaða hugsun er til dæmis að baki því að láta Hóras vera viðstaddan fyrri ræðu draugsins yfir Hamleti? Hamlet er þá ekki lengur einn um vitneskju sína um föðurmorðið og því eðlileg spurning hvað hann sé að darka þetta aðgerðarlaus mánuðum saman og þykjast vera geggjaður, í stað þess að ræða einfaldlega málin við Hóras og drífa svo í því að ganga frá kóngsskepnunni, sem þeir tveir ættu að hafa alla burði til. Ég skil ekki heldur til hvers Rósinkranz og Gullinstjarni eru hér gerðir að hlægilegum aulabárðum, mönnum sem gáfnaljósið Hamlet hefði aldrei gert að vinum sínum. Og enn síður skil ég hvers vegna útför Ófelíu er sviðsett sem einhvers konar farsi og þar með fótum í raun kippt undan lokaatriðinu sem í heppnaðri sýningu á leiknum verður ALLTAF hápunkturinn. Og þannig mætti áfram telja.



Ein stærstu mistök leikstjóra eru þó þau að velja Hilmar Jónsson í hlutverk Kládíusar. Kládíus er höfuðandstæðingur Hamlets og ef hann verður of lítilfjörlegur fellur dramað um sjálft sig. Hilmar hefur engan veginn þá nærveru né stærð sem hlutverkið kallar á og hann nær hvorki að sýna illsku mannsins né þær samviskukvalir sem hann líður undir grímunni. Og hvaða uppátæki er það hjá leikstjóra að gera Pólóníus að vitorðsmanni hans, sem er sýnt með því að láta ráðgjafann standa yfir kóngi þegar hann fer með hið magnaða eintal sitt í þriðja þætti?! Jóhann Sigurðarson hefði verið kjörinn í hlutverk Kládíusar og einhver eldri leikari þá mátt taka Pólóníus að sér – hvers vegna ekki Þorsteinn Gunnarsson sem sjaldan sést á sviði nú orðið? Ekki svo að skilja, Jóhann var fínn Pólóníus og sá eini sem Í LEIK miðlaði grimmd þess lymskufulla ofurvalds sem í leikritinu vofir alls staðar yfir – rétt eins og í þjóðfélagi skáldsins sjálfs, undir ógnarstjórn Elísabetar fyrstu.



Önnur mistök í leikendavali eru að setja Hilmar Guðjónsson í hlutverk Laertesar. Hilmar var fullkomlega ósannferðugur í því, virtist utan gátta og á stundum nánast eins og hann kynni vart það litla sem eftir var af rullutextanum. Innkoma hans í fjórða þætti, sem þarf að vera bæði hamslaus og hættuleg, varð einn mesti antí-klímax kvöldsins; drengurinn arkar inn (hvar var hallarvörðurinn?), patandi eitthvað út í loftið með skammbyssu sem Kládíus tekur svo ósköp rólega af honum! Hallgrímur Ólafsson hefði örugglega orðið betri Laertes, jafnvel undir svo einkennilegri leikstjórn sem þessari.



Hjörtur Jóhann Jónsson hvarf sem Hóras að mestu í breiðan skugga Hamlets, en hann gerði sumt laglega, fór til dæmis vel með lokaorðin. Elva Ósk Ólafsdóttir var hins vegar mjög góð sem Geirþrúður drottning, þokkafull yfirborðsmanneskja sem nær þó að vekja samúð; veiklynd og hrædd kona inni í glæstum leikbúningi, bjargarlaus fangi í sviðsetningu Valdsins. Þetta er það besta sem ég hef séð Elvu Ósk gera og samleikur þeirra Ólafs Darra í svefnhúsi drottningar varð eitt hið áhrifamesta í sýningunni. Það fór vart á milli mála að þessi Hamlet bar sterkari tilfinningar til móður sinnar en Ófelíu sem Hildur Berglind Arndal komst að mörgu leyti vel frá, ekki síst í brjálæðinu. Hún er leikkona sem þarf að slípast, en lofar góðu. Halldór Gylfason var spaugilegur í hlutverki grafarans, en ekki nógu „makaber“, gegnsósaður af nálykt og rotnun.



Lokaþátturinn fór sem fyrr segir í vaskinn. Þar má meðal annars benda á ankannalegar staðsetningar, eins og að láta hin blóðugu endalok fara að miklu leyti fram á baksviðinu, svo að þau glata að mestu áhrifum sínum. Einvígi Hamlets og Laertesar var hvorki fugl né fiskur og það eykur ekki samúð manns með Hamleti að láta hann vega Laertes með köldu blóði. Ég hef ekki séð kvenmann leika Fortinbras fyrr og vona ég eigi aldrei eftir að sjá það oftar. Og þurfti hinn norski kóngsson ekki nema einn riffilgarm til að ryðja sér braut inn í konungsgarð – einn og óstuddur?!



Þegar þessi sýning var fyrst kynnt kom fram að Jón Atli Jónasson myndi þýða verkið. Sá texti, sem hér er lagður leikendum í munn, er þó einhvers konar sambræðsla af þýðingu Helga Hálfdanarsonar og nýsmíðum Jóns Atla, sem skellir inn alls kyns slanguryrðum og nútíma orðaleppum, til að poppa upp textann, vænti ég, en umskrifar einnig suma kafla, vísast til að auðvelda styttingar. Þessi meðferð á höfundarverki Helga gengur þvert gegn fyrirmælum hans sjálfs sem birt eru í öllum útgáfum verka hans og ég er eitt hundrað prósent viss um að hann hefði aldrei lagt blessun sína yfir slíkt og þvílíkt. Hafi Jón Atli gefist upp á að þýða verkið undir frumbragnum, stakhendunni, hefði verið miklu hreinlegra að ganga alla leið og snúa því öllu í prósa, í stað þess að koma með hrákasmíð eins og þessa.

Niðurstaða: Ólafur Darri leggur allt undir í titilhlutverkinu mikla og skilar heilsteyptri og oft áhrifamikilli mynd af Hamlet. En misheppnað leikaraval, undarleg textagerð og vafasamar áherslur í leikstjórn og sviðsetningu draga sýninguna niður og lokaþátturinn jaðrar við að verða farsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×