Skoðun

Góðir eiginleikar eða slæmir

Jón Aðalsteinn Hermannsson skrifar
Bréf til félagsmálaráðherra

og fleiri:

Helstu eiginleikar þingmanna og ráðherra þurfa að vera, auk auðmýktar, dálítið vit eða bara skynsemi. Forræðishyggja er ekki góður eiginleiki, en sá galli er áberandi hjá núverandi ráðherrum. Reyna nú að koma málum svo fyrir að þeirra stjórnvaldsákvarðanir standi lengi eftir að þjóðin verður búin að hafna þeim og flokkunum.

Ólafur Ragnar, forseti á Bessastöðum, reyndist ekki alveg vera sjálfum sér samkvæmur, er hann tók lítið tillit til mótmæla og fjölda undirskrifta er ríkisstjórnin gerði frjálsu makrílveiðarnar ófrjálsar og kvótasetti, þá líka orðnar söluvara. Þó er talið að undirskriftirnar hafi haft áhrif og mildað frumvarpið þar sem þjóðareign á fiskinum í sjónum átti að færa til útgerðarmanna, frá þjóðinni. Það tókst ekki hjá sjávarútvegsráðherra.

Hlutverk félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, er mikilvægt í þjóðfélaginu. Tryggingastofnun heyrir undir þann ráðherra. Fáir vita, eða muna, hvert var hennar fyrsta verk sem ráðherra, það var að færa eldri borgurum strax frá 1. júlí 2013 hækkun eftirlauna en aðeins þeim er höfðu tekjur yfir 200 þús. kr.

Vinsældakapp

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skerti greiðslur til þeirra sömu frá TR en hlífði tekjulægra fólkinu. Þá var skilað, nú var gert öfugt. Þeir sem hæstu upphæðina fengu, fengu um 90 þús. kr. á mánuði. En 1. ágúst fengu þeir lægra launuðu, það er stóri hópurinn, 3.665 kr. Og aftur 15. janúar 2014 um 5.000 kr. Það var og er hin nýja stefna: Auka ójöfnuð meðal landsmanna til að afla Framsóknarflokknum vinsælda í kappi við Sjálfstæðisflokk, flokk sem aldrei hefur farið dult með sína stefnu, að gera efnaða fólkið efnaðra á kostnað þeirra tekjulægstu.

Samkvæmt þekkingu minni á Framsóknarflokknum, þá var hann flokkur jafnaðar. Hvað nú? Nú talar fjármálaráðherra um hækkun til tryggingaþega um þriðjung af þeirri upphæð sem samið var um á almennum launamarkaði við ASÍ.

Þannig hafa ráðherrar aukið launamun stórlega. Er nokkur furða þótt maður treysti ekki nokkrum þingmanni eða ráðherra Framsóknar til nokkurra góðra verka?

Ég skora á félagsmálaráðherra að jafna tekjur í þjóðfélaginu. Árið 2013 var Ísland efst á lista allra þjóða þar sem launamunur var minnstur; að hugsa sér hve skamman tíma tekur að breyta þeirri mynd. Nú birtist opinberlega skrá um skattgreiðslur t.d. forsætisráðherra, skattgreiðsla hans hefur lækkað milli ára um 10 milljónir, gott að eiga góðan vin sem er fjármálaráðherra. Hið sama mun gilda um svo marga auðmenn á Íslandi. Opinber gjöld þeirra hafa stórlækkað og samtímis hafa útgjöld til eldri borgara og öryrkja og heilbrigðismála líka lækkað. Í frjálsu og upplýstu þjóðfélagi, þá eiga skattaskil að vera aðgengileg fyrir allan almenning, leyndarhyggjan burt, en líklegt er að núverandi stjórnvöld reyni að koma leynd á, og bannað verði að birta gögn um skattaskil.

Okurleiga

Það virðist vera svo, að þjóðin sé að skiptast í tvær stéttir. Efnaða yfirstétt sem öllu ræður, stjórnmálamenn og vel ættað fólk, og svo fólkið, sem engu ræður og ekkert á.

Margsannað er að almenn velmegun meðal þjóða skapar traustan efnahag, misskipting ekki.

Bið ykkur mína góðu vini að skýra út fyrir mér hvernig þið farið að því að lifa á 182 þús. kr. á mánuði og líka hvernig þið getið átt íbúð, sem kostar ekkert að reka, ekki krónu. Það er reglan hjá TR að leigutekjur eru þannig að öll upphæðin er frádráttarbær samkvæmt reglum TR, frá greiðslum TR til okkar. Hjá skattinum er 41% af upphæðinni dregið frá, sem kostnaður við eign, sem er eðlilegt.

Hjá TR er ekkert eðlilegt. Minnist sögunnar frá byggingarnefnd Akureyrarbæjar, þegar bygging verkamannaíbúða hófst uppi á Brekkunni, þá var ekki gert ráð fyrir bílastæðum, með þeim rökum að „verkamenn ættu aldrei bíl“.

Öryrkjar og eldri borgarar eiga ekki að eiga bíl eða íbúð. Ég veit að á litlum og frekar illa hönnuðum íbúðum hér við hliðina á minni íbúð í blokkinni er leigan 120 þús. plús rafmagn á mánuði. Þá eru 60 þús. eftir á mánuði til að lifa. Ég veit að þið, vinir mínir, eruð allir stóreignafólk og eruð í Framsóknarflokknum. Það þarf ekki að þýða að mér sé illa við ykkur, því ég veit að ekkert ykkar mun nokkurn tíma í framtíðinni kjósa Framsókn því sá flokkur verður ekki til.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu auðmannafylgi. Það verður erfitt líf fyrir Bessastaðabónda, enda hættur að ferðast með „útrásarvíkingum“ og boða fagnaðarerindi þeirra, nú hefur hann ekkert til að segja frá og situr bara heima. Svona til upprifjunar, þá voru það tveir menn á Íslandi sem gagnrýndu Rannsóknarskýrslu Alþingis, forseti vor, fyrrverandi stjórnmálamaður, og þáverandi seðlabankastjóri DO, líka fyrrverandi stjórnmálamaður.

Hann sagðist „sjá eftir öllum þeim skógi sem farið hefði í útgáfu skýrslunnar“, forsetinn taldi hana fulla af rangfærslum um sig, enn og aftur, best að gleyma ferðalögunum í einkaþotu til útlanda og ræðunum um ágæti og yfirburði útrásarvíkinga.

Með baráttukveðju okkar til okkar ástsælu stjórnmálamanna.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×