Handbolti

Góðar fréttir fyrir Guðmund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rene Toft spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2005.
Rene Toft spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2005. Vísir/AFP
René Toft Hansen, línumaðurinn sterki, gefur kost á sér í danska landsliðið í handbolta á ný. Þetta eru góðar fréttir fyrir Guðmund Guðmundsson sem tók við landsliðinu af Ulrik Wilbek fyrr á árinu.

Hansen, sem leikur undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, tók sér frí frá landsliðinu eftir EM í Danmörku í byrjun árs, þar sem Danir fengu silfurverðlaun eftir stórtap gegn Frökkum í úrslitaleik.

„Ég hef alltaf haft ánægju af því að spila með landsliðinu, en spurningin hefur verið hvort ég hafi nógu mikla orku til að spila með því,“ sagði Hansen í samtali við Berlingske Tidende.

„En sumarfríið gerði mikið fyrir mig. Ég kom ekkert nálægt handbolta í 5-6 vikur og mér finnst ég vera endurnærður,“ sagði Hansen ennfremur, en síðasta leiktíð reyndist honum erfið.

„Það komu tímabil þar sem ég gat varla hlaupið upp og niður völlinn. Það er Kiel sem borgar launin mín og mér þarf að geta beitt mér að fullu þegar ég spila með liðinu. En mér finnst ég vera kominn í gott form og gef því kost á mér í landsliðið á ný.“

Danmörk leikur í riðli með Póllandi, Argentínu, Bahrein, Þýskalandi og Rússlandi á HM í Katar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×