Innlent

Goðafoss lenti í brjáluðu veðri og missti fjóra gáma

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Goðafoss hefur tafist um tvo sólarhringa vegna veðurofsa á Atlantshafi.
Goðafoss hefur tafist um tvo sólarhringa vegna veðurofsa á Atlantshafi. Vísir/Pjetur
Goðafoss lenti í „dýrvitlausu veðri“ norður af Færeyjum í byrjun vikunnar og hefur tafist um tvo sólarhringa á leið sinni til landsins. Skipið fékk á sig brot og missti fjóra gáma í sjóinn. Þetta staðfestir Ólafur Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa.

„Hann lenti í dýrvitlausu verði, eins og þeir segja orðrétt, norður af Færeyjum og tólf metra ölduhæð. Hann fékk yfir sig brot og missti fjóra gáma. Í þessum gámum var dagvara, umbúðir og neysluvara,“ segir Ólafur í samtali við Vísi um atvikið. Hann segir að engan hafi sakað um borð.

Eiginkona skipverja sem er um borð í Goðafossi segist hafa verið áhyggjufull vegna veðursins. Hún segir fjölskyldur skipverja hafa óttast um ástvini sína í óveðrinu. „Maður er búinn að vera hérna alveg á nálum,“ segir hún. „Maður er búin að vera að hafa áhyggjur af þeim.“

Ólafur segir að von sé á skipinu í höfn í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×