Enski boltinn

Góð úrslit fyrir Burnley og Brighton í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilio Nsue, leikmaður Middlesbrough.
Emilio Nsue, leikmaður Middlesbrough. Vísir/Getty
Middlesbrough náði aðeins 2-2 jafnefli á móti Birmingham í ensku b-deildinni í kvöld en það er gríðarlega spenna um hvaða tvö lið tryggja sér efstu tvö sætin í deildinni síðustu tveimur umferðunum.

Middlesbrough er á toppnum með 88 stig en bæði Burnley og Brighton eru einu stigi á eftir og geta því komist upp fyrir Boro með sigri í sínum leikjum sem eru ekki fyrr en á mánudaginn.

Leikmenn Middlesbrough töldu sig hafa skorað þriðja markið í seinni hálfleiknum en það var dæmt af.

Middlesbrough mætir Brighton um næstu helgi og úrslitin í kvöld breyttu því ekki að það verður úrslitaleikur um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Stephen Gleeson kom Birmingham City í 1-0 á 33. mínútu en Jordan Rhodes jafnaði metin fyrir Middlesbrough aðeins sjö mínútum síðar.

Jordan Rhodes átti skot í stöngina og Gaston Ramirez fékk dauðafæri í frákastinu en skaut yfir.

Gaston Ramirez bætti fyrir það nokkrum mínútum síðar þegar hann kom Middlesbrough í 2-1 á 57. mínútu. Markið kom eftir stoðsendingu frá Jordan Rhodes.

David Davis átti hinsvegar lokaorðið þegar hann jafnaði metin á 68. mínútu og 2-2 urðu lokatölurnar.

Daniel Ayala taldi sig hafa komið Middlesbrough aftur yfir mínútu síðar en markið var dæmt af vegna rangstöði. Sjónvarpsmyndavélarnar sýndi þó að það var rangur dómur.

Grant Leadbitter hjá Middlesbrough  átti síðan skot í slána rétt fyrir leikslok en hlutirnir féllu ekki með liðinu og Middlesbrough sá á eftir tveimur mikilvægum stigum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×