Innlent

Góð loðnuveiði á miðunum og hrognafylling komin yfir viðmið

Svavar Hávarðsson skrifar
Góð veiði hefur verið á miðunum frá upphafi vertíðar.
Góð veiði hefur verið á miðunum frá upphafi vertíðar. Vísir/Óskar
Hrognataka er hafin hjá HB Granda en Venus NS kom með um tvö þúsund tonna afla til löndunar á Akranesi á mánudag sem þótti uppfylla skilyrði til þeirrar vinnslu.

Að sögn Gunnars Hermannssonar, verkstjóra hjá HB Granda, í viðtali á vef fyrirtækisins, var hrognafyllingin í loðnunni komin yfir viðmiðunarmörk til hrognaskurðar og -frystingar og þroskinn þótti einnig nægilega mikill til að hrognataka gæti hafist.

Að hans sögn fékk Venus aflann út af Þorlákshöfn og var hrognafyllingin komin í 24% og þroski hrognanna góður. Því var hafist handa við að skera hrogn til frystingar.

Jafnan er miðað við 23% hrognafyllingu eða meira þegar hrognaskurður og frysting á hrognum getur hafist, að sögn Gunnars. Japanskir kaupendur vilja helst að þroski hrognanna sé 80% eða meiri en Gunnar segir það einfaldlega ráðast af framboði og eftirspurn hvar kaupendur setji mörkin hverju sinni.

Reikna má með því að um helmingur loðnuaflans sé hrygna sem hentar til hrognaskurðar og frystingar á hrognum. Annar afli er flokkaður frá og fer til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi auk afskurðarins. Um 50 manns starfa allan sólarhringinn í loðnuvinnslu HB Granda á Akranesi á meðan á vertíðinni stendur.

Allar fréttir af miðunum eru á sömu lund – afbragðs veiði heldur sér og mikið magn loðnu er á ferðinni. Reyndar berast fregnir af því að loðna hafi veiðst lengst inni á Norðfjarðarflóa fyrir austan á sama tíma og skipin voru í mokveiði fyrir sunnan land. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×