Innlent

Glíma við götusölu á netinu

fanney birna jónsdóttir og kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Lögreglan fór í þrjátíu daga átak gegn fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum.
Lögreglan fór í þrjátíu daga átak gegn fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum. Fréttablaðið/Sæþór
Umfang fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum er verulegt. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum vikum handtekið á annan tug manna og lagt hald á talsvert af fíkniefnum í aðgerðum sem beinast gegn sölu fíkniefna á samfélagsmiðlum.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri
„Við fórum í þrjátíu daga átak til að kortleggja þetta og gera okkur grein fyrir umfanginu,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri.

Við húsleit tók lögreglan í sína vörslu kókaín, LSD og um 200 grömm af amfetamíni, auk kannabisefna sem var að finna á allmörgum stöðum.

„Götusala fíkniefna er svona í dag. Hún fer fram á samfélagsmiðlunum. Hvar viltu hitta mig, ég kem þangað,“ segir Aldís Hilmarsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um samskipti fíkniefnasala og kaupenda á síðum á borð við Facebook.

Fréttastofa 365 hefur að undanförnu fjallað talsvert um Facebook-síður þar sem íslensk ungmenni eiga í viðskiptum með vopn, fíkniefni og annan varning.

Alda segir átakið hafa verið stutt og ljóst sé að slíkum síðum hafi fjölgað. „Við vorum að loka hátt í sjötíu síðum, sem þó voru misvirkar. Þetta er meira en við gerðum ráð fyrir, síðast þegar við kíktum voru þær í kringum fjörutíu,“ segir Alda.

Hún segir lögregluna hyggjast halda áfram aðgerðum sínum gegn þeim sem standa fyrir þessum síðum og selja á þeim. „Við erum að fylgjast með þessu og við getum ekki látið þetta óáreitt. Með þessu verður aðgengi fyrir börn og unglinga svo auðvelt.“

Aldís Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn
Aldís tekur undir þetta og segir lögregluna fylgjast vel með þessum síðum. „Þessum Facebook-síðum fjölgar mjög hratt. Við fáum fjölmargar ábendingar í gegnum Facebook-síðu lögreglu þar sem fólk gefur upplýsingar í einkaskilaboðum,“ segir Aldís.

Lögreglan lagði í aðgerðum sínum enn fremur hald á eina milljón króna sem taldar eru vera tilkomnar vegna fíkniefnasölu. Í hópi hinna handteknu eru aðallega karlar á þrítugsaldri, en ein kona var handtekin í aðgerðunum.

Að mati lögreglu er umfang fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum verulegt, en aðgerðunum verður framhaldið. Allnokkrum þessara Facebook-síðna, sem boðið hafa fíkniefni til sölu, hefur verið lokað.

„Ég held að þetta sé leiðin í dag, götusalarnir eru núna þarna, það er enginn á Hlemmi að selja fíkniefni. Eflaust fyrirfinnst þetta líka á fleiri miðlum, en við vorum bara að einbeita okkur að Facebook núna,“ segir Alda.

Þær minna einnig á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×