Skoðun

Gleymdu börnin

Ragnar Schram skrifar
Öll höfum við verið börn og vitum hve berskjaldaður maður getur verið á þeim tíma ævinnar. Maður er einhvern veginn svo háður foreldrum sínum og treystir því að þeir sjái um mann, enda er það hlutverk þeirra. En nú er það svo að tíunda hvert barn í heiminum býr ekki svo vel að njóta umönnunar foreldra sinna eða á á hættu að missa hana. Þessi börn eru berskjaldaðri en önnur börn. Og það sem verra er; þau eiga það til að gleymast og verða útundan þegar kemur að aðgerðum yfirvalda í málefnum barna. Að vísu eru málefni barna áberandi í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en því miður virðast umkomulaus börn eiga á hættu að verða útundan. Þetta sýnir ný skýrsla[1] sem unnin var fyrir SOS Barnaþorpin í Noregi og nær til fjölda landa.

Skýrslan sýnir að þegar stjórnvöld og stofnanir vinna að málefnum barna er oftast notast við gögn um barnafjölskyldur, þ.e. börn sem búa hjá forráðamönnum. Fyrir vikið verða umkomulaus börn og málefni þeirra oft út undan, börnin eru hvergi skráð og fá ekki þá athygli og aðstoð sem þau þurfa. Slík samfélagsleg einangrun er ekki góð viðbót við foreldraleysið þegar maður er barn. Þessi börn verða sum vinnuþrælar, önnur götubörn og/eða leiðast út í vændi og enn önnur gerast skæruliðar. Þau gleymdust.

Góðu fréttirnar eru þær að SOS Barnaþorpin og ýmsir aðrir aðilar eru að vinna í þessum málum. Ekki dregur það úr áhuga okkar að hverja krónu sem við fjárfestum í að hjálpa umkomulausum börnum í fátækari ríkjum heims fær samfélagið a.m.k. fjórfalt og allt að tífalt til baka[2].

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur komið að þessu verkefni með okkur og m.a. stutt fjárhagslega við fjölskyldueflingu SOS í Vestur-Afríku þar sem hjálpinni er beint að þeim börnum sem eiga aðskilnað við foreldra sína á hættu. Þannig hafa íslensk stjórnvöld sýnt ábyrgð í verki og það sama má segja um átta þúsund íslenskar fjölskyldur sem eru styrktarforeldrar umkomulausra SOS-barna og þúsundir annarra einstaklinga og fjölskyldna sem styðja við málefnið með ýmsum hætti.

[1] In the blind spot. Höfundur: Pia Lang-Holmen.

[2] Harvard University, Centre on the Developing Child.

(2009) ‘Five numbers to remember about early

childhood development’




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×