Innlent

Glaumbæjakirkja biður um hlut í ferðamannatekjum byggðasafnsins

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Byggðasafnið á Glaumbæ og Glaumbæjarkirkja eru nágrannar og gestir safnsins leggja bílum sínum iðulega við kirkjuna.
Byggðasafnið á Glaumbæ og Glaumbæjarkirkja eru nágrannar og gestir safnsins leggja bílum sínum iðulega við kirkjuna. Mynd/Sigríður Sigurðardóttir
„Þetta er spurning um að það sé eitthvað komið til móts við þá sem leggja aðstöðuna eiginlega alla fram,“ segir Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarkirkju, um þá ósk að sóknin fái hlut í aðgangseyri ferðamanna að sýningu Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ.

Um fjörutíu þúsund gestir heimsóttu Glaumbæ í fyrra og greiddu þar ýmist 1.200 krónur eða 900 krónur í aðgangseyri eftir því hvort þeir voru í hóp eða ekki.

„Flæði ferðamanna á staðnum er líka inn í kirkjuna og kirkjugarðinn. Bílaplanið við kirkjuna er notað allt sumarið. Og kirkjan á lóðina undir safninu,“ segir séra Gísli sem hefur bæði sent byggðaráði Skagafjarðar erindi um málið og gengið á fund nefndarinnar. Auk þess sem ekkert endurgjald komi fyrir lóð byggðasafnsins standi til að skipuleggja nýja innkeyrslu að safninu og nýtt bílaplan. „Það þarf þá allt að vera í samráði við eiganda jarðarinnar, sem er Kirkjumálasjóður,“ undirstrikar sóknarpresturinn.

Sigríður Sigurðardóttir, forstöðumaður byggðasafnsins, segir að þyrfti safnið að sjá á bak hluta aðgangseyrisins sem greiddur sé inn í gamla bæinn í Glaumbæ þyrfti það að fá peninga annars staðar frá eða að segja upp starfsfólki.

„Þetta er okkar lifibrauð þannig að ég býst við að þetta verði afgreitt ljúflega og kurteislega með höfnun,“ segir Sigríður. Það sé hins vegar vissulega rétt að á álagstímum sprengi aðsóknin bílastæði safnsins utan af sér og þá leggi gestir við kirkjuna.

„Við höfum haldið kirkjunni opinni fyrir sóknina mörg sumur sem er gott mál fyrir báða aðila,“ segir forstöðumaðurinn sem bendir á að á ákveðinn hátt sé um merkilegt mál að ræða. Það tengist erfiðum rekstri á kirkjum um allt land. „Hver veit nema fleiri sóknarnefndum detti í hug eitthvað álíka? Þegar menn fara að lenda í vandræðum með rekstur kirknanna sinna þá er eðlilegt að þeir líti í allar áttir og kanni möguleikana.“

Gísli segir að þótt nefnt hafi verið að kirkjan fengi hluta af aðgangseyri byggðasafnsins kæmu aðrar leiðir til greina. „Sveitarfélagið er að greiða fyrir aðstöðu hér og þar og þetta gæti kannski verið eitthvað svipað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×