Innlent

Glæpasamtök kaupa þjónustu hakkara

Snærós Sindradóttir skrifar
Karl Steinar segir valdapýramída mafíunnar liðinn undir lok. Nú starfi glæpahópar í flatara skipulagi.
Karl Steinar segir valdapýramída mafíunnar liðinn undir lok. Nú starfi glæpahópar í flatara skipulagi. Fréttablaðið/Ernir

Guðfaðirinn er allur. Skipulögð glæpasamtök um allan heim vinna nú eftir flatara skipulagi í stað hins hefðbundna valdapýramída. Þetta er mat Karls Steinars Valssonar, tengifulltrúa Íslands hjá Europol. Ný skýrsla frá Europol kynnir svokallað crime-as-a-service viðskiptamódel. „Þróunin er sú að fjarlægð milli brotamanns og þolanda verður meiri og verður ógreinanlegri og erfiðari fyrir lögreglu að sjá. Þetta eru áskoranir sem lögregla stendur frammi fyrir og hefur verið að glíma við,“ segir Karl.

Viðskiptamódelið gengur þannig fyrir sig að glæpasamtök kaupa sér sérfræðiþjónustu tímabundið. „Þeir voru áður sérhæfðari á tilteknum sviðum. Sami hópur var að flytja inn fíkniefni á milli tveggja til þriggja landa og þróaði sig yfir í að flytja kókaín á milli Suður-Ameríku og Spánar. Þaðan færðu þeir sig svo upp á skaftið með því að flytja það áfram inn til Þýskalands, Frakklands og síðan upp Evrópu. En það sem gerist núna er að menn eru ekkert að einblína á ákveðin fíkniefni heldur hafa fært sig út og helgað sér svæði í öðrum brotum. Brotahópar eru að fara inn í mansal, notfæra sér tölvuþekkingu og fara inn í fullt af öðrum brotaflokkum. Þeir hafa nýtt sér þróunina á margan hátt miklu hraðar en yfirvöld gjarnan í sínum aðgerðum.“

Netið opnar nýjar leiðir

„Drifkrafturinn er peningar. Það er þess vegna sem þeir fara inn á hvaða svið sem er, þeir telja sig geta haft peninga upp úr krafsinu. Þeir kaupa einstaklinga sem tryggja að þeir nái peningum úr þessum brotum, síðan er sá settur til hliðar og næsti kallaður inn til að gera eitthvað annað. Brotahópurinn fær svo fjármunina. Takmörkin sem voru bundin við hæfni brotamannanna sem voru að vinna saman eru ekki lengur hindrun,“ segir Karl. 

Hann segir örfáa vita hver launþegi brotahópanna sé. Þekkt sé að sérfræðiþekking tölvuhakkara sé fengin til að yfirtaka tölvukerfi eða heimasíður fyrirtækja. „Síðan er krafist lausnargjalds fyrir það. Þeir yfirtaka tölvukerfi, láta það hverfa og hafa svo samband nokkrum dögum síðar og bjóða kerfið til baka fyrir kannski milljón evrur. Það eru í sjálfu sér engin takmörk fyrir því hvað þeir geta gert.“ „Það má segja að það sé undantekning frekar en hitt að netið hafi ekki mikið vægi í svona stærri málum. Þetta kallar á allt aðra sýn hjá lögreglu en hefur verið. 

Lögregla og tollayfirvöld verða að hafa ákveðna grunnþekkingu til þess að takast á við þessi mál. Þarna held ég að það sé ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af okkur Íslendingum, ekkert síður en öðrum þjóðum,“ segir Karl. Hann segir að þó að íslenskir lögreglumenn séu miklir netnotendur og hafi grunnþekkingu, þurfi miklu meiri ítarþekkingu til að kljást við mál af þessu tagi. 

„Drifkrafturinn er peningar“ segir Karl Steinar Valsson lögreglumaður um skipulagða glæpastarfsemi. Fréttablaðið/Ernir

Tveimur skrefum á undan

„Mér hefur fundist að yfirvöld á Íslandi hafi í of miklum mæli verið að reyna að máta brotahópa inn í gildandi skipulag yfirvalda. Það er að mínu mati alveg kolröng leið, vegna þess að brotamenn fara ekki að haga sér eftir því hvernig yfirvöld vinna eða hvernig þau eru skipulögð.“ Hann segir lögreglu þurfa að haga sínum rannsóknum í takt við skipulag glæpasamtaka. „Það er í fyrsta skipti verið að reyna að gera þetta heima með því að breyta skipulagi rannsókna hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í takt við það sem er helst að gerast í Evrópu,“ segir Karl. 

Ný miðlæg deild lögreglunnar heldur utan um fíkniefnabrotin, fjársvikamálin, manndrápin og í raun öll stærri mál sem ekki eru kynferðisbrot. „Þarna er í raun verið að tryggja ákveðið flæði á milli. Lögreglan hefur verið með of mikið af múrum. Múrar á meðal brotahópa verða sífellt minni en þeir hafa verið miklu stærri og sterkari innan lögreglu. Þessi tími er liðinn.“ 

Íslenski markaðurinn stór

Karl Steinar segir að mikill fjöldi fíkniefnamála sem Íslendingar eru viðriðnir tengist ekki smygli til Íslands. Nærtækast er að nefna þrjá Íslendinga sem handteknir voru á Spáni í október síðastliðnum. Þeir, ásamt erlendum glæpasamtökum, sáu um ræktun og flutning úr háþróaðri kannabisverksmiðju. Í verksmiðjunni fundust hátt í sex þúsund kannabisplöntur sem flytja átti til Hollands. 

„Ég held að við getum ekki litið fram hjá því að brotahópar á Íslandi blandast fleiri þjóðum. Fíkniefnamarkaðurinn hefur þótt fremur stór miðað við höfðatöluna. Að einhverju leyti er það vegna þess að við erum að margfalda fjölda okkar með ferðamönnum. Það eru þokkalega stór mál sem hafa komið upp bara á þessu ári. Það segir þó nokkuð til um markaðinn. Það er neysla fyrir þessu.“ Algjör metfjöldi hefur fundist af MDMA það sem af er ári miðað við undanfarin ár. Fyrstu níu mánuði ársins lagði lögregla hald á ríflega 213 þúsund MDMA-töflur og um 30 þúsund grömm af amfetamíni. 

Svik, þjófnaður og sala

„Alþjóðleg samvinna yfirvalda, lögreglu og tollyfirvalda er lykil­atriði. Með henni er hægt að tryggja ákveðna þekkingu. Það er ekki hægt að leysa þessi mál einangrað. Við höfum einfaldlega ekki bolmagn til þess,“ segir Karl. Hann segir að glæpastarfsemi nái þvert á lönd og heimsálfur. 

„Þú getur verið að tala um aðila sem eru að stela kortaupplýsingum frá þér. Þeir geta notað þær upplýsingar þannig að einstaklingur á Spáni sé að panta vörur frá Kína og vörurnar eru svo afhentar í Þýskalandi. Vörunni er svo komið með einhverjum öðrum hætti til Frakklands. Til þess að stoppa þetta þurfa fleiri en eitt land og fleiri en tvö lönd að vinna saman. Það er þessi heimur sem raunverulega blasir við okkur. Þetta hefur bara verið að gerast núna á tiltölulega skömmum tíma.“ 

„Aðalatriðið er að þegar brotahópar sjá tækifæri til að ná í fjármuni þá geta þeir sérhæft sig. Ef þeir eru ekki í fíkniefnum þá eru þeir til dæmis í svikastarfsemi gagnvart hinu opinbera, og þar eru miklir fjármunir. Við höfum séð ákveðna þræði í því, bæði svik frá skatti og bótum. Við þurfum að vera miklu sveigjanlegri í því að geta brugðist skjótt við því þegar upplýsingar eða ábendingar koma um eitthvert ákveðið brotaferli sem er í gangi. Brotahóparnir sjá verðmæti í persónulegum upplýsingum á netinu. Bankaupplýsingar og allt mögulegt annað getur orðið þeim að féþúfu. Þessi hraða þróun á netinu kallar á breytt vinnubrögð lögreglu,“ segir Karl.

Karl Steinar Valsson hefur áhyggjur af fjársveltri lögreglu. Greint hefur verið frá því að tækjabúnaður sé langt frá því að standast gæðakröfur. Fréttablaðið/Ernir

Lítil skörun við hryðjuverk

Hryðjuverkaógnin í Evrópu tekur tíma og mikla fjármuni frá lögregluliðum. Karl Steinar óttast að við þær aðstæður muni eftirlit með skipulögðum glæpahópum glatast og að þeir leiki lausum hala í meiri mæli en nú. „Það sem ég óttast núna er að það verði of öfgafull viðbrögð. Við þurfum að sýna skynsemi í því hvernig brugðist er við. 

Það er lykilatriði að mínu mati að tryggja ákveðnar grunnstoðir, hafa þekkinguna í lagi og vera tilbúin til að vinna í meiri mæli með fleirum. Verkefnin krefjast þess að við séum tilbúin til þess að vinna saman. Ég er auðvitað að fylgjast með því sem sagt er í almennri umræðu og þar koma svo rosalegar öfgar sem ég hef aldrei aðhyllst og hefur aldrei fundist skynsamleg nálgun. Það þarf að vera ákveðin skynsemi í því sem við gerum. Við þurfum að byggja það á rökum hvernig við tökum ákvarðanir.“ 

Hann segir litla skörun verða á milli skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka. Stundum skarist þessir tveir hópar varðandi vopnasölu en hryðjuverkasamtökin sem hafa mest gert sig gildandi á síðustu mánuðum séu frekar einangruð. Þó sé það svo að skipulögð glæpastarfsemi þrífist í kringum fólksflótta frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum til Evrópu. 

„Brotahóparnir eru farnir að notfæra sér það að ná til flóttamanna sem koma til Evrópu í leit að betra lífi. Þeir taka að sér að koma þeim á einhvern ákveðinn stað eða selja þeim leið á nýjan áfangastað gegn greiðslu. Þær greiðslur geta verið einhverjar þúsundir evra sem viðkomandi mun greiða. Maður veltir fyrir sér með hvaða hætti viðkomandi getur greitt það. Það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað þessum brotahópum dettur í hug að gera til að ná sér í fjármuni.“

Hells Angels léku á Íbúðalánasjóð

Fimm karlmenn voru árið 2012 dæmdir fyrir milljónatuga króna svik út úr Íbúðalánasjóði. 

Talið var að svikin væru liður í inngöngu mótorhjólaklúbbsins Fáfnis í alþjóðasamtök Hells Angels. 

Milljónirnar námu á fimmta tug en ekki tókst að sanna að íslensku mennirnir hefðu fengið ávinning af svikunum. Féð fannst ekki heldur áður en dómur féll. 

Þetta mál er skólabókardæmi um það hversu víðfeðm brot geta verið sem skipulagðir glæpahópar fremja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×