Fótbolti

Gladbach-menn voru áhorfendur á Nývangi í gær og sáu Barca setja sendingamet

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fengu ekki að vera með.
Fengu ekki að vera með. vísir/getty
Barcelona átti ekki í neinum vandræðum með að rústa þýska liðinu Borussia Mönchengladbach saman í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gærkvöldi en liðið vann, 4-0, og hafnaði í fyrsta sæti í C-riðli með 15 stig af 18 mögulegum.

Tyrkinn Arda Turan skoraði þrennu í leiknum og er kominn í hóp með ansi flottum nöfnum sem hafa skorað þrennu fyrir Barca í Meistaradeildinni. Þar má nefna Rivaldo, Ronaldinho, Neymar og Messi.

Það er óhætt að segja að leikmenn Gladbach hafi verið áhorfendur í leiknum á Nývangi í gær því þeir fengu varla að taka þátt í honum. Barcelona setti sendingamet en liðið reyndi ríflega 1.000 sendingar í leiknum. Það met hafði staðið í tólf ár.

Það sem meira er kláruðu leikmenn Barcelona 896 sendingar í leiknum og voru 66 prósent með boltann. Leikmenn Gladbach komust varla yfir miðju og þurftu að hirða boltann fjórum sinnum úr eigin neti.

Fjórir leikmenn Barcelona voru á topp fimm listanum yfir flestar sendingar heppnaðar í Meistaradeildinni í gærkvöldi en þar var Javier Mascherano á toppnum með 126 og André Gomes kom næstur með 122. Samuel Umtiti var svo þriðji með 109 og Andrés Iniesta fimmti á eftir David Alaba hjá Bayern með 108 sendingar heppnaðar.

Það var að litlu fyrir Gladbach að keppa í leiknum. Það var búið að tryggja sér þriðja sætið áður en kom að honum. Það fer nú í Evrópudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×