Golf

GKJ og GOB í eina sæng - Golfklúbbur Mosfellsbæjar stofnaður í gær

Frá Hlíðavelli í Mosfellsbæ.
Frá Hlíðavelli í Mosfellsbæ. GKJ
Í gær var samþykkt með afgerandi meirihluta á félagsfundum Golfklúbbs Bakkakots og Golfklúbbsins Kjalar að sameina klúbbana tvo undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Ný stjórn fyrir klúbbinn var kosin en í þessum nýja klúbbi eru rúmlega 1200 meðlimir sem munu hafa aðgang að tveimur golfvöllum, Hlíðavelli í Mosfellsbæ og Bakkakotsvelli í Mosfellsdal.

Guðjón Karl Þórisson var valinn nýr formaður klúbbsins en hann var áður formaður Golfklúbbsins Kjalar. Hann segir í samtali við Vísi að sameiningin sé mikið heillaskref fyrir golfíþróttina í Mosfellsbæ.

Það eru alls konar kostir við að sameina klúbbana en þar má nefna hagræði í rekstri, betri þjónusta við meðlimi, svigrúm til að byggja flott klúbbhús, meiri samkeppnishæfni við aðra klúbba og auðveldari samskipti við bæjaryfirvöld sem hingað til hafa verið öll af vilja gerð til þess að styðja bak við golfið í Mosfellsbæ.

Golf er í eðli sínu íhaldsöm íþrótt og hefðirnar sem klúbbarnir tveir í Mosfellsbæ hafa skapað í gegn um tíðina margar. Guðjón segist ekki vera hræddur um að þær glatist þótt að af sameiningunni hafi orðið.

Við munum reyna að halda hefðunum sem hafa sérkennt GKJ og GOB í gegn um tíðina ásamt því að skapa nýjar hefðir með nýjum klúbbi. Það hefur verið frábær andrúmsloft í báðum klúbbum hingað til og tækifærin fyrir okkur eru mörg. Það er mikil en spennandi vinna framundan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×