Handbolti

Gjaldþrotið gegn Króötum setur framtíð landsliðsins í uppnám

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson stendur svekktur á meðan strákarnir ræða saman í leikhléi.
Aron Pálmarsson stendur svekktur á meðan strákarnir ræða saman í leikhléi. vísir/valli
Verkefnið var erfitt en gulrótin var stór. Tækist strákunum okkar að leggja Króata þá færi liðið með fjögur stig í milliriðil. Króatar með breytt lið og nú var lag. Þetta flotta tækifæri var svo sannarlega ekki nýtt því íslenska liðinu var hreinlega slátrað, 37-28. Þvílík flenging.

Strákarnir mættu í raun aldrei til leiks. Varnarleikurinn var sama gjaldþrotið og gegn Hvít-Rússum og sóknarleikurinn pínlegur. Engar lausnir gegn vörn Króata og í okkar vörn var ekki hægt að kaupa eitt stopp. Króatar komust í 5-1 og staðan var 11-2 eftir rúmar 14 mínútur. Leikurinn í raun búinn. Króatar náðu mest tíu marka forskoti í fyrri hálfleik en leiddu með níu mörkum í leikhléi, 19-10. Ótrúlega lélegt.

Sama hörmungin hélt áfram í síðari hálfleik. Strákarnir fundu aldrei neistann og fengu nákvæmlega það sem þeir áttu skilið. Þeir voru eins og litlir skólastrákar gegn karlmönnum á vellinum. Það var átakanlega erfitt að horfa upp á þetta. Að horfa á þessa reyndu og góða handboltamenn líta út eins viðvaninga inn á vellinum.

Það var ekki bara það. Það vantaði allan anda, kraft og grimmd í drengina. Það vantaði alla leikgleði og ástríðu. Án hennar hefur þetta lið aldrei unnið neitt. Það var engu líkara en þeir væru bugaðir af stressi sem er ótrúlegt þar sem þetta er einkar reynt lið sem þekkir þetta allt.

Annað stórmótið í röð veldur liðið gríðarlegum vonbrigðum. Það vita allir að þessir leikmenn geta betur. Hverjum er um að kenna? Þjálfaranum eða leikmönnum? Þjálfarinn er auðvitað sá sem er ábyrgur fyrir gengi liða en leikmenn verða einnig að axla ábyrgð. Þeir áttu að gera betur enda geta þeir það.

Er tíma Arons lokið hjá HSÍ?

Staða Arons Kristjánssonar er ákaflega veik eftir þetta mót. Skiljanlega. Ég yrði afar hissa ef hann héldi áfram með liðið. Hans lið féll aftur á stóra prófinu og það eru engar afsakanir. Hann var með sitt besta lið en virtist ekki vera með þær lausnir sem þurfti.

Íslenska landsliðið er betra en svo að árangurinn í síðustu tveim mótum sé boðlegur. Aron vildi ekkert gefa upp um framtíðina í gær en sagðist ætla að skoða sína stöðu á næstu dögum.

Þessi skellur í Katowice þýðir líka að íslenska liðið mun ekki spila á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst næstkomandi. Ísland gæti því í besta falli komist næst inn á stórmót eftir ár. Þessi hörmulegi árangur gæti orðið þess valdandi að Ísland lendi í neðri styrkleikaflokki og fái sterkari andstæðing.

Þetta gjaldþrot setur framtíð liðsins í uppnám og það verður að taka alvarlega. HSÍ þarf að fara í naflaskoðun með liðið og umgjörð þess því sumir leikmenn eru að komast á tíma og framtíðin virðist alls ekki vera nógu björt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×