Viðskipti innlent

Gjaldeyristekjur af þjónustu verði meiri en af vöruútflutningi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ferðaþjónusta dregur vagninn í vexti á gjaldeyristekjum vegna þjónustu.
Ferðaþjónusta dregur vagninn í vexti á gjaldeyristekjum vegna þjónustu. vísir/pjetur
Það stefnir í að gjaldeyristekjur í ár, af þjónustu (600 til 610 milljarðar króna), verði í fyrsta sinn meiri en tekjur af vöruútflutningi (520 til 530 milljarðar króna). Þar dregur ferðaþjónusta vagninn. Þetta kemur fram í nýjum Hitamæli Samtaka ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónusta er sannanlega að festa sig í sessi í íslensku hagkerfi og nú stefnir í að árið 2016 verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu landsins. Miðað við tiltækar upplýsingar má gera ráð fyrir að um 1.8 milljón erlendir ferðamenn komi til landsins í ár eða rösklega 40 prósent fleiri en í fyrra. Þar eru ekki taldir með um 99 þúsund erlendir ferðamenn sem komu til landsins með skemmtiferðaskipum en þeim fækkar (1,5 prósent) lítillega milli ára, annað árið í röð. Þessu til viðbótar má gera ráð fyrir að um 1 milljón erlendra ferðamanna  (2 milljónir skiptifarþega) eða um 47% fleiri en í fyrra, fari um Ísland á leið sinni til annarra landa. Þá má líka benda á að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru jafnframt starfandi utan Íslands á erlendum mörkum (Atlanta ehf. og Primera Air ehf.).

Á árinu 2010 urðu ákveðin þáttaskil í komum erlendra ferðamanna til landsins með tilheyrandi áhrifum á gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Þannig hafa þjónustutekjur vaxið hraðar en flestir hagvísar eða um rösklega 60 prósent frá árinu 2010. Í því ljósi á ekki að koma á óvart að nú stefnir í að gjaldeyristekjur í ár, af þjónustu, verði í fyrsta sinn meiri en tekjur af vöruútflutningi. Á árinu 2009 var vægi ferðaþjónustu í þjónustuútflutningi um 47 prósent en gera má ráð fyrir að hlutfallið verði 76 prósent í ár. Þá er það líka tákn um nýja tíma í hagsögunni að það sé afgangur á viðskiptajöfnuði, 8 ár í röð – þrátt fyrir halla á vöruskiptajöfnuði.

Allt að 460 milljarða tekjur af ferðaþjónustu 

Í ár má gera ráð fyrir að gjaldeyristekjur íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu stefna í að verða um 450 til 460 milljarðar króna. Um 300 milljarðar króna vegna neyslu erlendra ferðamanna innanlands og um 150 til 160 milljarðar kr. vegna sölu á fargjöldum til erlendra ferðamanna til, um og utan Íslands.

Það er vissulega góð ástæða að fagna þessari þróun en á Íslandi hefur lengi verið stefnt að því, leynt og ljóst, að afla gjaldeyris til að standa undir þeim innflutningi sem bætt lífskjör kalla óumflýjanlega á. Í skýrslu McKinsey sem kom út eftir hrun var tekið undir þessa stefnu, þ.e. að „leið landsins til aukinna lífskjara“ væri undir vaxandi útflutningi komin en vegna vaxtarskorts í hefðbundnum auðlindagreinum þyrfti að breikka samsetningu útflutnings og auka vægi fyrirtækja í alþjóðageiranum í útflutningsframleiðslunni.

Í skýrslu McKinsey sem gefin var út 2012 var settur fram mælikvarði sem sýndi hlutfall inn- og útflutnings sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þessum mælikvarða er ætlað að sýna hversu opin hagkerfi landa eru. Á árinu 2010 var þetta hlutfall fyrir Íslands um 97 prósent af VLF. Á þennan mælikvarða hefur þróunin verið í rétta átt. Hlutfallið hefur vaxið og var að meðaltali um 103 prósent af VLF á tímabilinu 2011 til 2015 hér á landi, hærra en í Svíþjóð (86 prósent), í Finnlandi (78 prósent), í Noregi (69 prósent) og viðlíka og í Danmörku (103 prósent).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×