Viðskipti innlent

Gjaldeyriskaup jukust um 114 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/stefán
Seðlabanki Íslands keypti erlendan gjaldeyri fyrir samtals 386 milljarða króna 2016 og jukust kaup bankans um 42% á milli ára. Þrátt fyrir þessi miklu gjaldeyrisinngrip hækkaði gengi krónunnar um 18,4 prósent á árinu. Þá stækkaði gjaldeyrisforði Seðlabankans um 163 milljarða og nam 815 milljörðum í árslok 2016.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Seðlabankinn sendi frá sér í gær en þar segir að velta á millibankamarkaði með gjaldeyri hafi verið 702 milljarðar, sem er 42% aukning frá fyrra ári. Hlutur Seðlabankans í veltunni var 55% og hélst óbreyttur á milli ára. Þá var óskuldsettur gjaldeyrisforði, eða sá hluti forðans sem er fjármagnaður í krónum innanlands, samtals 592 milljarðar í lok síðasta árs. Það er tæplega hundrað prósent aukning á einu ári.

Afgangur í utanríkisviðskiptum, lækkandi gjaldeyrisstaða bankakerfisins og nokkrir stórir fjármagnsflutningar einkaaðila til landsins ollu viðvarandi þrýstingi til styrkingar á gengi krónunnar á árinu. Þá var einnig um þrjátíu milljarða gjaldeyrisinnstreymi á fyrri hluta ársins vegna nýfjárfestingar í ríkisskuldabréfum, eða svonefnd vaxtamunarviðskipti. Það innflæði stöðvaðist þegar Seðlabankinn kynnti til sögunnar nýtt fjárstreymistæki í júní 2016. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×