Innlent

Gjaldeyrishöftin kalla ekki á breytingar á EES

Brjánn Jónasson skrifar
Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Løkkegaard spurði framkvæmdastjórn ESB um áhrif gjaldeyrishaftanna á EES-samninginn.
Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Løkkegaard spurði framkvæmdastjórn ESB um áhrif gjaldeyrishaftanna á EES-samninginn.
Engin ástæða er til þess að gera breytingar á samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) þrátt fyrir að Ísland hafi ekki uppfyllt eina af meginstoðum samningsins frá því gjaldeyrishöftum var komið á, að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB).

Þetta kemur fram í svari framkvæmdarstjórnarinnar við fyrirspurnMorten Løkkegaard, Evrópuþingmanns danska hægriflokksins Venstre, sem fjallað var um á Vísi nýverið.

„Þar sem fjármagnshöftin voru sett í samræmi við EES-samninginn og í ljósi þess að unnið er að því að losa um þau er engin ástæða til þess að endurskoða samkomulagið,“ segir í svarinu.

Løkkegaard spurði framkvæmdastjórnina hvort viðhorf hennar hafi breyst í ljósi þess að gjaldeyrishöftin hafi nú verið við lýði í fimm ár.

Framkvæmdastjórnin segir lögmæti gjaldeyrishaftanna hafa verið staðfest af EFTA-dómstólnum, og sé í samræmi við undanþágur í EES-samningnum. Af því leiði að framkvæmdastjórnin geri engar athugasemdir við höftin.

Í svarinu segir að það sé flókið að afnema gjaldeyrishöftin, og framkvæmdastjórnin hafi engar upplýsingar um hvenær það gæti tekist. „Lokatakmarkið er áfram það að draga hægt og rólega úr þessum tímabundnu gjaldeyrishöftum,“ segir í svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×