Jól

Girnilegir eftirréttir

Sólveig Gísladóttir skrifar
Fersk ber með berjasósu og mascarpone-ostakremi og heimagert lífrænt súkkulaði.
Fersk ber með berjasósu og mascarpone-ostakremi og heimagert lífrænt súkkulaði. Myndir/Vilhelm
„Ég geri aldrei neitt flókið,“ segir Elín.
Elín heldur úti vefsíðunni komduadborda.com sem hún setti í loftið á afmælis­daginn sinn þann 28. desember í fyrra.

„Ég hef alltaf haft áhuga á mat. Ég fékk sem barn að vera frjáls í eldhúsinu heima og fór í sveit sem krakki fram á unglingsár þar sem ég aðstoðaði í eldhúsinu og fékk að baka og gera það sem ég vildi. Eftir að ég fór að búa fór ég að reyna mig áfram, keypti matreiðslubækur og fór á námskeið,“ segir Elín sem hefur ávallt viljað búa til sem hollastan mat fyrir fjölskyldu sína. Þegar hún var beðin um uppskriftir að eftirréttum í Jólablaðið ákvað hún að ráðfæra sig við dætur sínar.

„Þær voru allar sammála um að velja mas­carp­one-eftirréttinn enda er hann í miklu uppá­haldi. Súkkulaðið valdi ég því það er ekki langt síðan ég lærði að búa það til. Bæði er það ofboðslega gott en það er líka að stærstum hluta lífrænt og því næstum eins og að fá sér vítamínmola,“ segir hún glaðlega. Hún segir réttina báða mjög auðvelda. „Ég geri aldrei neitt flókið,“ segir hún og hlær.  

Girnilegur réttur sem hentar bæði sem eftirréttur og á kaffihlaðborð í jólaboðum stórfjölskyldunnar. Mynd/Vilhelm
Fersk ber með berjasósu og mascarpone-ostakremi 

250 g mascarpone, 1 askja 

1 dl sýrður rjómi 

50 g pálmasykur 

1 stk. vanillustöng 

250 ml rjómi 

Léttþeytið rjóma. Ostur, sýrður rjómi, sykur og korn innan úr vanillunni eru sett í matvinnsluvél. Blandað saman þar til allir kekkir eru farnir. Blandið saman við rjómann. Notið sleikju. 

Berjasósa 

200 g bláber, frosin 

1 msk. pálmasykur 

2 tsk. chiafræ 

Setjið ber og pálmasykur í pott. Sjóðið saman við vægan hita í 5 mínútur. Hrærið í og stappið með sleif. Bætið chiafræjum saman við í lokin. Látið kólna. Þó hér séu notuð bláber gefst vel að nota aðra ferska ávexti. Raðið saman annaðhvort í ­litlar desertskálar eða stóra skál. Setjið berjasósuna neðst, þá kemur mascarpone-kremið, ofan á fersk niðurskorin ber, aftur mascarpone-kremið og ferskir ávextir á toppinn. Í stóru skálina gerði Elín tvöfaldan skammt sem dugar fyrir tólf manns. 

Heimagert lífrænt súkkulaði 

Blöndunni er hægt að skipta í tvennt og vera með ólík bragðefni. 

1 bolli lífrænt kakósmjör 

1 bolli lífrænt kakóduft 

½ bolli lífrænt hunang 

Blanda 1 

1 tsk. lífrænt vanilluduft 

Blanda 2 

2 tsk. lakkrísduft 

1 tsk. lakkríssalt 

½ dl saxaðar möndlur eða hnetur
 

Bræðið fyrst kakósmjörið, gætið þess að ekki fari vatn í það. Byrjið á að setja sjóðandi vatn í frekar stóra skál. Setjið kakó­smjörið í aðra skál sem sett er í skálina með með heita vatninu. Látið bráðna. Takið skálina úr vatninu. Bætið restinni af innihaldsefnunum út í og hrærið vel saman. Hellið blöndunni í smjörpappírsklætt kökuform eða sílikonform. Dreifið möndlunum eða hnetunum yfir súkkulaðið. Látið storkna inn í ísskáp í a.m.k. hálftíma. Brjótið súkkulaðið í passlega mola og geymið í lokuðu íláti í ísskáp.






×