Enski boltinn

Giggs líkir Zlatan við Cantona: Hann er aðalmaðurinn hjá United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan og Cantona eru ekki ósvipaðar týpur.
Zlatan og Cantona eru ekki ósvipaðar týpur. vísir/getty
Ryan Giggs, fyrrverandi leikmaður Manchester United, sér margt líkt með Zlatan Ibrahimovic og Frakkanum Eric Cantona sem var kallaður kóngurinn á Old Trafford þegar hann spilaði þar á síðasta áratug síðustu aldar.

Zlatan er að slá í gegn hjá United en hann er búinn að skora 15 mörk í ensku úrvalsdeildinni og 24 í öllum keppnum síðan hann gekk í raðir liðsins síðasta sumar.

Svíinn segir líka það sem hann er að hugsa í viðtölum ekki ólíkt Eric Cantona sem lét flest allt flakka þegar hann var að raða inn titlunum fyrir Manchester United á sínum tíma.

„Það er margt líkt með þeim þar sem þeir hafa mikið sjálfstraust og trúa á eigin getu. Svo skora þeir báðir mikið af mörkum,“ segir Giggs.

„Það truflaði ekki Cantona að mæta til United og vera aðalmaðurinn og það sama má segja um Zlatan. Nú er Zlatan að fá mikið lof eins og Cantona á sínum tíma en þeir missa sig ekkert í gleðinni.“

„Þetta er bara þeirra starf og það sést að bæði Zlatan núna og Cantona þá eru miklir atvinnumenn. Zlatan er alltaf í góðu formi og það er hreint ótrúlegt að sjá að hann getur enn þá skorað öll þessi mörk,“ segir Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×